Sportveiðiblaðið, efnisyfirlitið sést kannski að einhverju leyti.

Jólablað Sportveiðiblaðsins er komið út fyrir nokkrum dögum. Alltaf sami jólaglaðningurinn til handa veiðimönnum sem enn eru að jafna sig á því að vertíðin er á enda. Það eru ekki allir sem geta spyrnt sér yfir í skotveiði til að deyfa tómið. Blaðið er fullt af skemmtilegheitum.

 

Eins og fyrri daginn ætlum við ekki að rekja efnisyfirlitið, en tvær greinar standa uppúr að okkar mati, af mörgum fínum. Það eru annars vegar hugleiðingar Bjarna Júlíussonar um stöðu mála í laxveiði á Íslandi. Eftir síðasta sumar virðist sú staða ekki vera sérlega góð, en við vitum líka að síðustu árin hafa frábær sumur komið í kjölfarið á arfalélegum sumrum. Bjarni er með ýmsar forvitnilegar pælingar sem gaman er að velta fyrir sér með honum. Síðan er það viðtal Eggerts Skúlasonar við Sigruð Héðinn, Sigga Haug, sem var öllum að óvörum að gefa út sína fyrstu bók um stangaveiði. Haugurinn er einn þekktasti fluguhnýtari landsins og leiðsögumaður til áratuga. Bókin hefur fengið frábæra dóma og við munum fjalla um hana nánar á næstunni. Viðtalið er stórskemmtilegt.