Hylurinn og breiðan neðan við fossinn er með fallegri veiðistöðum landsins og gjöfull með afbrigðum. Mynd Einar Falur.

Þeir sem ekki hafa lesið sig í gegnum nýlega útkomna bók um Hofsá og Sunnudalsá vita kannski ekki að hugmyndir eru uppi um að byggja laxastiga við fossinn í Hofsá. Við það myndu opnast víðlend ný búsvæði fyrir laxinn.

Fossinn fallegi séður úr lofti. Mynd Einal Falur.

Það er leigutakinn, Veiðiklúbburinn Strengur, sem að veltir þessu fyrir sér, en félagið hefur staðið fyrir fiskvegagerð og margvíslegum laxræktarátökum á Norðausturlandi síðustu árin, má nefna við Selá, Sunnudalsá, Miðfjarðará við Bakkaflóa.  Þá er í gangi marga ára vísindaverkefni á vegum Strengs á þessum slóðum. En það er ekki hlaupið að því að gera fiskveg við fossinn í Hofsá. Hugmyndirnar eru því stórhuga. Í umræddri bók um Hofsá og Sunnudalsá er viðtal við Gísla Ásgeirsson framkvæmdastjóra Strengs og þar gerir hann m.a. að umræðuefni ýmsar tilraunir landeigenda til styrkingar laxastofns Hofsár sem fór illa í gríðarlegum flóðum fyrir nokkrum árum. Gísli segir m.a.

„En yfir þessu hefur maður verið að stumra í gegnum árin, að taka þátt í öllu því sem reynt hefur verið að gera til að byggja ána aftur og styrkja hana. Það er ekki bitið úr nálinni ennþá með afleiðingar flóðana, en þetta er að koma hægt og rólega til baka, þó að það sé að gerast hægar en við vonuðumst eftir… m.a. hjálpaði það ánni að lax var fluttur upp fyrir foss til að hrygna þar og nýta búsvæðin. Það hefur verið aflagt núna og þess í stað tekið til við að grafa hrogn á sérvöldum stöðum vítt og breytt. Það er ein mesta aðgerð sem ráðist hefur verið í, í laxræktarskini, en það er ekki nógu langt um liðið frá því að hrognagröftur hófst til að við séum farin að sjá árangurinn.

Þetta hefur hins vegar virkað vel annars staðar þar sem þetta hefur verið reynt, þar af leiðandi erum við öll bjartsýn að þetta gangi upp fyrir Hofsá líka. Það gafst líka vel að flytja lax upp fyrir foss, en veiðifélagið sér um þessi mál og vill einbeita sér að hrognagreftrinum. Strengur stendur með félaginu heils hugar. Maður getur samt ekki annað en hugsað til þess hvað hægt væri að gera ofan við fossinn. Væri hann gerður laxgengur þá kæmist laxinn einhverja 111 kílómetra inn í land, fræðilega séð alla leið í Sæmundarvatn. Þarna upp frá eru góð skilyrði, ekki lakari en í Selá þar sem við höfum opnað uppúr öllu valdi fyrir laxinn. Það er gerlegt að byggja laxastiga í fossinn og það er áhugi fyrir hendi. Ekki er þó hægt að segja meira um það í bili en að málið sé í skoðun.“