Risableikja úr Þingvallavatni

Ríkarður Hjálmarsson
Svona getur gerst í Þingvallavatni! Ríkarður með 64 cm sílableikju.

Vötnin eru dottin í gang fyrr en oft áður, enda óvenjulega gott vor. Sumir segja að það verði komið haust í ágúst, jafnvel seint í júlí með sama áframhaldi, en við skulum draga djúpt andann. Menn eru að veiða vel í vötnunum þessa daganna. Kíkjum á það.

Við heyrðum í Ríkarði Hjálmarssyni silungsveiðimanni í dag, hann hefur stundað Þingvallavatn stíft síðustu daga, bæði í Þjóðgarðinum og á einkasvæði sem verður ekki nefnt sérstaklega. En hann hefur veitt vel og fer fögrum orðum um bleikjuna, mikið af henni sé um 2 pundin, feit og bústin. En hann hefur lent í sílableikjum líka og landaði einni sem var hvorki meira né minna en 64 cm….á að giska 7-8 pund. Hún tók Langskegg í einkalandinu.

Burtséð frá því höfum við heyrt af fínum hrúgum víða að. Margir einmitt á Þingvöllum, en Úlfljótsvatn hefur einnig komið sterkt inn, heyrðum af einum sem kom með 9 bleikjur heim eftir kvöldstund. Sá fékk hálftíma logn og þá sauð vatnið, en tökurnar voru samt ekki þá heldur á djúpt veiddar púpur, nánast á dauðareki.