Laxinn er mættur í Kjósina!

Laxá í Kjós, Kvíslafoss
Kvíslafoss í Laxá í Kjós, þar er laxinn líka farinn að sýna sig. Mynd Heimir Óskarsson.

Laxinn er kominn í Laxá í Kjós, en áin sú er ein af þeim þar sem fyrstu laxarnir koma að jafnaði afar snemma. Þetta verður þó að teljast með fyrri skipunum, en lax sást í ánni í gær.

Á FB síðu Hreggnasa, leigutaka Laxár, kemur fram að lax hafi sést í ánni í gær. Ekki kom þó fram nákvæmlega hvar, en eflaust hefur það annað hvort verið í Laxfossi eða Kvíslafossi, þar sem menn geta hvað best skyggnst eftir þeim silfraða. Lítið vatn var í ánni og hægt um vik að sjá í ána, en síðan hefur rignt og vaxið í henni. Á FB síðunni er getið um óvenjulega hlýtt vor, svo hlýtt að gönguseiði séu þegar að mestu gengin úr ánni og að sjá lax þann 14.mai sé um tíu dögum fyrr heldur en gengur og gerist í ánni.