SVFR endurvekur fluguveiðiskólann við Langá

Strengirnir, Langá, Jón Eyfjörð
Glímt við lax í Strengjunum í Langá. Mynd Jón Eyfjörð.

Stangaveiðifélag Reykjavíkur hefur ákveðið að endurvekja Fluguveiðiskólann við Langá, sem starfræktur var um árabil og naut mikilla vinsælda. Hilmar Þór Jónsson flugukastkennari FFF er skólastjóri skólans og með honum verða reyndir leiðsögumenn og kastkennarar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá SVFR.

Ef VoV rekur rétt minni til þá var skóli þessi starfræktur á þeim árum sem að Ingvi Hrafn Jónsson var með ána á leigu. Rétt er, að vinsældir skólans voru umtalsverðar. Gaman að þetta skuli vera rifjað upp og gott ef ekki er annar svona fluguveiðiskóli í uppsiglingu, þ.e.a.s. við Ytri Rangá. En allt um það, síðan má nefna Fluguveiðiakademíu þeirra Fishpartnermanna, allt góð dæmi um vaxandi grósku sem lýtur að því að efla nýliðun í sportinu og auka skilning á viðfangsefninu. Að ekki sé talað um að þátttakendur nái enn meiri ánægju útúr ástundun sinni.

En sakvæmt framangreindri frétt SVFR þá „hentar skólinn jafnt fyrir lengra komna sem byrjendur í fluguveiði. Farið verður yfir grunninn í fluguköstum, veiðiaðferðir, tækni og nálgun við veiðistaði, helstu hnútar verða kynntir og þátttakendum kennt að velja flugur eftir aðstæðum og veiðistöðum. Einnig verða kennd grunnatriði í fluguhnýtingum..Dagskráin hefst kl. 16 þann 31. maí og lýkur á hádegi sunnudaginn 2. júní. Athygli er vakin á því að flest stéttarfélög niðurgreiða námskeiðið. Nánari upplýsingar, um kostnað og fleira er að finna á vefsíðu SVFR, www.svfr.is