Valgarður Ragnarsson, Húseyjarkvísl
Valgarður Ragnarsson með einn spikfeitann úr Húseyjarkvísl.

VoV sat að spjalli í vikunni með tveimur sérfræðingum í vorveiði á sjóbirtingi. Þetta voru þeir Friðjón Sæmundsson eigandi Veiðiflugna á Langholtsvegi og Valgarður Ragnarsson, stórveiðimaður og leigutaki Húseyjarkvíslar sem er ein sterkasta sjóbirtingsá landsins. Talið barst að flugum og aðferðum.

Mest fór fyrir Valgarði í spjallinu, enda vorum við Friðjón mest í því að spyrja meistarann. Á meðan skimaði hann yfir flugubarinn í Veiðiflugum og tíndi út nokkrar sem hann telur ómissandi í boxið. Og ekki aðeins í vorbirtinginn, þessar flugur má allar heimsæra uppá staðbundinn urriða og sjóbleikju þegar líður á sumar, að ekki sé talað um þegar birtingurinn kemur aftur í árnar uppúr miðju sumri og fram eftir hausti.

Iðan, „trailer“ efst, Golli, Olive Ghost, hvítur Nobbler og Flæðarmús. Þarna vantar aðeins Black Ghost Sunburst.

Hvaða straumflugur notar þú mest?

„Það er mjög einföld formúla í þessu. Það eru bara fáar flugur sem að ég nota níutíu prósent af tímanum. Mikið notuð fluga er Black Ghost, sunburst útgáfan, en afbrigði af henni, Olive Ghost er ein af mínum helstu „go to“ flugum. Óhemju sterk fluga sem ég tek fram yfir hina hefðbundnari Black Ghost. Þá nota ég mikið Gollann, flugu sem Ingólfur Davíð Sigurðsson hnýtti fyrstur fyrir mörgum árum. Hún er með magnaða litasamsetningu og gúmmílöppum sem stinga í stúf við litahollinguna. Þá verð ég að nefna svokallaða „trailer“útgáfu af gömlu góðu Iðunnisem er gamalgróin fluga eftir Kristján heitinn Gíslason. Þessar „trailer“ flugur eru gríðarlega magnaðar og hafa verið að skja í sig veðrið síðustu árin. Síðan eru þetta örfáar gamlar klassískar, Nobblerar, sérstaklega hvítur og Flæðarmúsin.“

Og hvernig veiðir þú með straumflugunum?

„Hægt, fyrst og fremst mjög hægt. Engin læti. Eins hægt og ég get án þess að flugan fari að festast í botninum. Þetta gildir hvort heldur ég nota flotlínur eða sökklínur. Með flotlínu veiði ég jafnvel hægar en með sökkvandi línum.“

Nú hefur það færst mjög í vöxt að veiða sjóbirtinginn á púpur, ekki síst í smærri ám þar sem fiskurinn bunkar sig á afmörkuðum svæðum, hvernig snýr sá veiðiskapur að þér?

„Ég hef víða veitt en hin seinni ár hef ég aðallega verið í Húseyjarkvísl. Þar höfum við verið að bæta í með púpurnar. Yfirburðapúpa þar er Copper Jogn og Phesant tail er einnig mjög sterk. Þá má nefna Beyki, (og 2-3 aðrar sem sjá má á myndunum)“

Þetta eru púpurnar sem Valgarður valdi, þarna eru m.a. Copper John, Beykir og Phesant tail.

Og hvernig veiðir þú með púpunum?

„Ég veiði með þeim bæði andstreymis með tökuvara og læt þær reka. Hvoru tveggja eru sterkar aðferðir. Af því að ég nefndi Húseyjarkvísl sem minn helsta stað síðustu árin, þá kenndi púpuveiðin okkur mikið. Til dæmis það, að venjan var alltaf að byrja á vorin með straumflugunum og það var það sem gekk. Og þegar leið á apríl fór að draga úr og þá héldu menn hreinlega að fiskurinn væri einfaldlega farinn. En svo fórum við að reyna púpur og þá kom í ljós að birtingurinn er miklu lengur í ánum en við héldum lengi vel. Og hann var að taka púpurnar þó hann sýndi straumflugunum þá lítinn áhuga. Þetta leiddi af sér að við vorum að fá fína veiði langt fram eftir mai.“

Hvernig velur þú þar fyrir utan, hvort þú setur undir straumflugu eða púpu?

„Straumflugu pottþétt alltaf í miklu vatni, þungu vatni, kannski smá skoluðu vatni. En um leið og vatnið er orðið tært þá er kominn tíma á púpurnar.“

Sjóbirtingur, Varmá
Glæsilegur sjóbirtingur. Mynd -gg.

Hvað með tauma?

„Með sökklínum, eða sökktaumum, þá pæli ég ekki mikið í taumum. Þar er hægt að hnýta stuttan nísterkan taum framan á sökktauminn og það er verkfærið með straumflugunum. Þetta breytist þó þegar tími púpunnar er kominn. Ég vil helst ekki vera með nettari taum en tólf pund þegar ég er með púpu. Það er einfaldlega vegna þess að við erum að veiða svo stóra fiska.“