Kápan af Hofsárbókinni, lax þreyttur í Neðri Fosshyl. Mynd Einar Falur.

Guðmundur Guðjónsson og Einar Falur Ingólfsson luku nýverið við bók um Hofsá og Sunnudalsá í Vopnafirði sem er sjötta bókin sem þeir vinna saman um íslenskar laxveiðiár. Útgefandi er sem fyrr Litróf. Bókin var fyrst kynnt í sextugs afmælisveislu Strengs, sem er leigutaki og rekstraraðili Hofsár, Sunnudalsár og Selár að auki.

Bókin er byggð upp með líkum hætti og fyrri bækur. Saga veiða í ánum er rakin frá upphafi og í þessari bók er óvenjulega mikið um gamlar myndir sem segja merkilega sögu. Hofsá ein og sér á sér með merkilegri sögum íslenskra laxveiðiáa, en þar komu hópar breskra veiðimanna á sjötta áratug síðustu aldar og veiddu í ánni áratugum saman og lögðu grunn að uppbyggingu árinnar eins og menn þekkja hana í dag. Þó var fyrst veitt á stöng í ánni um eða uppúr 1920.

Samstarf umsjónarmanna var hefðbundið, Einar Falur sá um alla nýrri ljósmyndun og Guðmundur sá um ritstjórn ritaðs efnis. Bókin er 228 blaðsíður og skreytt fjölda stórglæsilegra mynda. Þá koma margir viðmælendur við sögu og segja af reynslu sinni af ánni í áratugi og veiðimenn segja magnaðar sögur af viðskiptum við stórlaxa sem Hofsá er fræg fyrir.