Um Nudd í Nuddsholu – Kaflabrot í Fjallamönnum

Kjarnakonurnar hjá Sölku hafa endurútgefið hina merku bók Fjallamenn eftir goðsagnapersónuna Guðmund Einarsson frá Miðdal sem var ekki aðeins einn fremsti stangaveiðimaður síns tíma, heldur mikið náttúrubarn og ferðagarpur. Þetta er afar sérstæð bók og með leyfi Sölku, birtum við hér smá kafla úr bókinni, en hún er enn einn kosturinn í jólapakka veiðimanna þetta árið.

„Það mátti nefna lax með nafni heldur átti að segja „hann“. Ekki skorða stöngina með steinum á bakkann, því það voru hednurnar sem seiddu fiskinn.

Við sátum á Stórasteini og Veiðiklettum, þegar útrænan kom á kvöldin. Hildur sat álút með stöngina sína og starði á vatnið, hrikalegt Finnaandlit, svipbrigðalaust og hátíðlegt, þegar við töluðum um árnar og heiðarvötnin – dýpin, kolgræn djúp, þar sem „þeir gömlu stóru“ lágu rólegir og leyndardómsfullir. Og sú gamla sagði: „Ó, svona stórir,“ og hún mældi á stönginni, „digrir eins og roflurkar með kjálkabörð trosnuð af elli.“ „Mannstu þegar ég missti þann stóra við Ósinn? Hann var gulur af elli með þrjá veiðihlykki og sporð eins breiðan og torfspaða.“

Við vissum líka um óbotnandi djúp og leyndardóm Myrkurtjarnar. Hún hafði séð skrýmslið í ljósaskiptum, hrygglanga ófreskju með trjónu og þrem beinhnúðum á trýninu. Þessu varð ekki andmælt. Í vestasat viki Silungatjarnar var ker. Þar lá silungamóðir, hún kom upp á yfirborðið einu sinni á Jónsmessunótt og rak upp eins mörg hljóð og silungahundruðin voru, sem veiddust í tjörninni á árinu. Við tveir elstu bræðurnir höfðum eitt sinn legið í byrginu við víkina lengi fram eftir á Jónsmessunótt. Allt í einu heyrðum við þyt í lofti og sáum eitthvað steypast ofan í vatnið í víkinni. Þá sáum við hringmyndaða röst í vatnsborðinu yfir kerinu og heyrðum þrjú langdregin óp. Við hlupum heim dauðskelkaðir.

Við fundum það á okkur, að „hann“ var genginn. Sú gamla átti hníf með fornlegu skafti og biturlegu blaði. Í því var blóðrauf, – djúp skora við bakkann – blóðraufin varð dökk á lit þegar „hann“ var genginn, en þegar féll á hnífinn áttum við vissa veiði. Við fundum líka lyktina, hún barst með vestanáttinni. Bezt fannst hún í hvammi við bæjarlækinn þar sem Nuddur átti heima. Nuddur var silungur sem hændi með sér siliunga á vorin neðan úr vatninu þar sem „hann“ hrygndi.

Nuddur hafði mannsvit og kom á hverju vori í holuna sína við hvamminn. Við þekktum hann á því að hann hafði svartan blett á kjálkabarðinu. Það var vandi hans að nudda sér við steinnibbur hjá holunni þegar hann var svangur. Þá tíndum við handa honum maðk, hann át þá úr hendi okkar. Eitt sinn varð honum hált á því. Pabbi hafði skotið kjóa, og yngri bróðirinn skar af honum fótinn til að gæða Nuddi. Þótt gáfaður væri, gat silungurinn ekki kingt, því að klóin var ekki skorin af. Nærri lá að þetta væri hans banabiti. Við uppgötvuðum skjótt, að Nuddur var horfinn úr holunni sinni, og leituðum að honum um allan lækinn. Að lokum fundum við hann langt niður með túni, þar lá hann upp í loft og hreyfðist ekki. Við hófum lífgunartilraunir, drógum út úr honum kjóalærið og strukum hann í polli í ískaldri uppsprettu. Þetta dugði, eftir lítinn tíma byrjaði hann að tifa uggunum, og samdægurs fluttum við hann í fötu í holu sína.

Silungurinn varð okkur sérlega kær eftir þetta, og við tókum að leika við hann. Hann leyfði okkur að handleika sig og ná sér í holunni, en ef við héldum honum lengi á lofti, átti hann til að bíta okkur. Fjölda mörg ár kom Nuddur með silunga í lækinn. Við máttum ekki veiða í námunda Nuddsholu, þá gátum við átt á hættu að veiða börn hans. Þetta voru óskráð lög.