Langá á Mýrum.
Opnun Langár var alger bomba. Mynd Heimir Óskarsson.

Langá var opnuð með hvelli í morgun og var mikið fjör á bökkum hennar. Þá höfum við örlítið meira tæmandi fregnir af fyrsta degi í Vatnsdalsá svo og opnunartölur úr Haukadalsá.

Katrín Hera Gústafsdóttir, Kerstapafljót, Langá
Katrín Hera Gústafsdóttir með 75 cm hrygnu úr Kerstapafljóti í Langá í gærmorgun.

Fregnir ofan úr Langá segja að um 40 laxar hafi verið dregnir þar á land á fyrsta degi og góður helmingurinn tveggja ára laxar, sem Langá er þó ekki beinlínis þekkt fyrir. Lax var upp um alla á og menn misstu líka góðan slatta af laxi. Það er vaxandi straumur núna, nær hámarki um helgina og það er að bæta í göngur, ekki aðeins í Langá heldur út um allt og nú er það blanda af smálaxi og stórlaxi sem er að vaða upp árnar.

Haukadalsá var opnuð á þriðjudaginn og komu 5 laxar á land og nokkrir sluppu. Var lax á öllum svæðum nema helst neðst, þar var rólegt. Því ofar, því meira líf og til marks um hvað laxinn er kominn langt þá veiddust sex laxar í Þverá í Haukadal, hliðará Haukadalsár, en hún er aðeins veidd með einni stöng.

Vatnsdalsá, Hnausastrengur
Sá stærsti í opnun Vatnsdalsár, 99 cm úr Hnausastreng.

Menn urðu víða varir við lax í Vatnsdalsá og settu í nokkra, en mikið sunnan hvassviðri gerði mönnum erfitt fyrir, m.a. gruggaðist Flóðið þannig að frægasta og besta veiðisvæðið á þessum tíma sumars, Hnausastrengur og Hólakvörn litaðist. Samt náðu menn að landa a.mk. fimm löxum, þar af einum í Hnausa sem var 99 cm.

 

Erik Koberling, Þverá í Borgarfirði
Erik Koberling með rígvæna hrygnu úr Þverá í dag, þar hafa verið rífandi göngur að undanförnu, bæði stórlax og smálax.

Ef við stígum niður fæti hér og þar, þá var opnunarhollið í Miðfjarðará með 106 laxa takk fyrir góðir gestir. Þá má nefna að Þverá/Kjarrá var komin í 256 laxa í kvöld og Laxá í Kjós og Laxá í Leirársveit í 31 og 27 laxa, en þær hafa einungis verið opnar síðan á mánudag. Þá má geta þess að fyrsti laxinn úr Reykjadalsá í Borgarfirði kom á land í dag. Ansi gott því hún er með magnaðri síðsumarsám landsins.