Straumfjarðará, Rjúkandi
Veitt á Rjúkandabreiðu neðan við fossinn Rjúkanda í Straumfjarðará. Mynd -gg.

Það þykir tíðindum sæta að Straumfjarðará er nú komin í útboð, en félagið Snasi hefur haft ána á leigu um nokkuð langt árabil. Straumfjarðará er gjöful laxveiðiá að öllu jöfnu og í henni er einnig sjóbleikja neðst og vaxandi sjóbirtingsgengd.

Páll Ingólfsson formaður stjórnar veiðifélags árinnar sendi VoV svohljóðandi fréttatilkynningu: “Veiðifélag Straumfjarðarár í Eyja og Miklaholtshreppi óskar hér með eftir tilboði í lax- og silungsveiði á starfssvæði félagsins fyrir árin 2018 til 2022 , að báðum árum meðtöldum, samkvæmt meðfylgjandi útboðsskilmálum og fyrirlyggjandi upplýsingum. Útboðsgögn eru hjá umsjónarmanni útboðsins Páli Ingólfssyni formanni stjórnar Veiðifélags Straumfjarðarár, sími; 893-1135 netfang pall@reist.is Og verða þau afhent gegn 10.000.- skilagjaldi. Frestur til að skila tilboði rennur út þann 25. október 2017 kl. 12:00. Tilboðum skal skila á Lögmannstofuna LOGOS Efstaleiti 5, 103 Reykjavík Tilboðin verða opnuð þann dag kl. 16:00 í viðurvist þeirra bjóðenda sem þess óska á Lögmannsstofunni LOGOS.”

Veitt er á 3-4 stangir í Straumfjarðará og veiddust í henni 352 laxar á nýliðnu sumri, 348 í fyrra. Síðan árið 2000 hefur veiðin hlaupið á bilinu 191 og upp í 718 laxa, en meðalveiðin er líklegast ríflega 300 stykki. Glæsilegt veiðihús er við ána og í því seld þjónusta sem er einsdæmi á Íslandi í ekki stærri einingu er raun ber vitni.