Óvenjulega mikið af óvenjulega stórum birtingi í vor!

Einn sá stærsti úr Geirlandsá 2019, 95 cm. Gunnar Óskarssson, landaði honum 1.apríl í fyrra.

Sjóbirtingsveiðin hefur farið blússandi vel af stað þetta vorið. Vitað var að talsvert væri af fiski, en góð skilyrði gefa síðan öllu saman byr undir báða vængi. Það sem komið hefur kannski einna mest á óvart er hversu ógurlega stóra birtinga menn eru að setja í og landa. Þeir stærstu 95 og 96 cm en einnig „all nokkrir“ um og yfir 90 cm. Skoðum aðeins.

Sá stærsti var 96 cm hængur veiddur í Tungufljóti. Aldrei verður þó fullyrt að hann hafi verið þyngri heldur en 95 cm hængur sem veiddur var í Ármótunum í Geirlandsá. Báðir veiddir á flugu og báðum sleppt.

Tungufljót...
Sá stóri úr Tungufljóti, 96 cm, svaðalegt tröll…..

Byrjunin var alls staðar góð og jafnvel með besta móti eins og í Geirlandsá þar sem fyrsta holl var með 139 fiska og annað holl127. Þriðja holl síðan 91 fisk. Þetta er gapandi tölur og ekki síst þegar stjórn SVFK lætur þess getað að auk 95 cm drjólans hafi „all nokkrir“ um og yfir 90 cm veiðst þessa fyrstu daga.

Í Ytri Rangá veidddist vel, m.a. margir stórir. Sá stærsti 85 cm og veginn 8,5 kg í háfnum, eða sem sagt 17 pund!

Ytri Rangá vorveiði
Einn rosalegur úr Ytri Rangá í vikunni

Í Eldvatni eru þeir stærstu komnir yfir 80 cm, í Brunná 84 cm og í Húseyjarkvísl 80 cm. Alls staðar er talað um slatta af 70-80 cm birtingum. Nú skulum við hafa í huga að birtingur um og yfir 70 cm er engin smásmíði og um 80 cm eru þetta orðin tröll sem eru orðin gömul og lífsreynd að auki.Fiskar á borð við fyrrnefnda 90 til 96 cm birtinga eru því orðnir afgamlir stríðsfákar og spurning um hvort að komið sé að leikslokum hjá þeim fyrir elli sakir. Þeir eiga þó að njóta vafans.

Ritstjóri er orðinn meira en nógu gamall til að muna að fyrir kannski tuttugu árum eða svo voru „stórir“ sjóbirtingar alls ekki svo tíðir, en svo fór þetta að smákoma og miðað við skoðanir þeirra mörgu sem við höfum rætt við má segja að aukning í „veitt og sleppt“ skitpti hér algerum sköpum og jafnvel meira svo heldur en hvað varðar laxveiði, því sjóbirtingsstofnar geta verið mjög viðkvæmir, en einstaklingar að sama skapi mjög gamlir. Sem þýðir að þeir hrygna mun oftar en laxar ef þeir eru ekki drepnir. Nú er svo komið að menn geta farið í nánast hvaða sjóbiringsá sem er á landinu og vænst þess að setja í og landa þeim stóra. Eiga jafnvel meiri möguleika á því heldur en gamla góða 100 cm laxinn.

Svo bíðum við og sjáum hvort að ekki bæti í ævintýrin þegar svæðin öll í Þingvallavatni opna hvert af öðru á næstu dögum.