Breiðdalsá, kvöldstemming. Ljósmynd Jóhanna Hinriksdóttir

Það hefur ekki blásið byrlega fyrir Þröst Elliðason, leigutaka Breiðdalsár og Jöklu. En hann lætur engan bilbug á sér finna og ætlar sér áfram stóra hluti.

Vandi Þrastar er annsars vegar hvenær fær hann yfir sig yfirfall í Jöklu og hvernig reiðir gönguseiðunum af í Breiðdalsá. Jökla sjálf er orðin nánast sjálfbær með náttúrulega hrygningu. Fyrra vandamálið var afgerandi í sumar, tíðin fylltu virkjunarlónin snemma sumars og yfirfallið brast á, reyndar um svipaðan tíma og í fyrra. En í fyrra kláraðist það þannig að það náðust um það bil tíu dagar í veiði sem skiluðu frábærri veiði þó að fimbulkalt væri. Hitt, með gönguseiðin, er erfiðara að halda utanum. Það er hafið og Breiðdalsá, sérstaklega, hefur farið illa útúr því. Áin nær ekki hundrað löxum í ár, en hefur fari í vel á annað þúsund hin seinni ár. Þröstur segir vandann vera tvíþættan, það sé lítið af laxi að skila sér, en líka nánast enginn að veiða…og það veiðist ekki lax ef það er enginn að veiða. Hann vonar samt það besta og telur ástand og horfur fyrir næsta ár vera góðar.

En það er ekki eins og enginn sé fiskurinn. Það er fullt af fiski í Jöklu og að undaförnu, þegar dregið hefur úr yfirfallinu, hefur veiði aukist í óskum bergvatnsána við Jöklu. Einn sem skaust fékk t.d. átta laxa á tveimur vöktum. Það er líka fiskur í Breiðdalnum, Björgvin í Veiðiflugunni veiddi t.d. vel þar fyrir skemmmmstu og missti einn hrikalegan, vel yfir meterinn, sem kominn var hálfur í háfinn, í ármótum Tinnu og Norðurdalsár. Þar liggja nokkur risakvikindi.

Þröstur er síðan með Hrútafjarðará á leigu og hún er ein af þeim örfáu ám á landinu sem eru að skila svipuðu eða meiri tölu en í fyrra.