Þrír nýir stjórnarmenn voru kjörnir til tveggja ára í forystu SVFR á aðalfundi félagsins um helgina. Þar af var aðeins þriðja konan sem tekur sæti í stjórn félagsins frá upphafi.

Sú fremur óvenjulega framvinda átti sér stað að allir þrír stjórnarmenn hvers sæti var kosið um tóku þann kost að gefa ekki færi á sér til endurkjörs. Sex félagar í SVFR buðu sig þá til stjórnarsetu og eðli málsins samkvæmt náðu þrír kjöri, en þremur var hafnað. Þau sem náðu kjöri og sitja í stjórn næstu tvö árin voru Ágústa Katrín Guðmundsdóttir, Jóhann Kristinn Jóhannsson og Ólafur Finnbogason, en þeir sem sátu eftir með sárt ennið voru Reynir Þrastarson, Stefán Hallur Jónsson og Jón Víðir Hauksson. Á vef SVFR kemur fram að kosningin hafi verið spennandi, 140 utankjörfundaratkvæði hafi legið fyrir og hundrað manns hafi mætt til viðbótar og kosið. Félagið telur þó yfir 3000.

Ef að okkur misminnir ekki, þá er Ágústa Katrín aðeins þriðja konan sem sest í stjórn SVFR, á undan henni voru Ragnheiður Thorsteinsson, sem nú víkur úr stjórn og forveri þeirra beggja María Anna Clausen kaupmaður í Veiðihorninu sem braut blaðið.