Breiðdalsá
Breiðdalsá, 84 cm lax Jóns Skelfis mældur í háfnum.

Laxveiðisvæði Strengja opnuðu öll í gær, 1.júlí. Síðsumarsár þar á ferð. Þó hafði sést lax í þeim öllum síðustu daga og vikur og því góðar væntingar….sem þær stóðu síðan allar undir. Um er að ræða Hrútafjarðará, Breiðdalsá og Jöklu.

Óðinn Gestsson, Hrútafjarðará
Óðinn Gestsson með fallegan smálax úr Hrútafjarðará.

Strengir höfðu eftir Karli Ásgeirssyni, sem opnaði Hrútafjarðará ásamt félögum sínum, að „mikið líf væri um alla á“ og að veið og horfur væru góðar. Þeir voru komnir með fjóra á land eftir fyrstu vakt og höfðu misst aðra fimm, þannig að það var nóg að gera í Hrúta til að halda mönnum á tánum.

Fjórir komu á land í Breiðdalsá á fyrstu vakt þar af þrír á Skammadalsbreiðu. Þeir voru allir stórir, allt að 84 cm, en stærsti lax dagsins var 90 cm 16 pundari sem tók í Gunnlaugshlaupum. Eitthvað settu menn í og misstu að auki. Fínasta byrjun í Breiðdalsá.

Magni Bernharðsson, Jökla
Magni Bernharðsson með 85 cm lax úr Fossárgrjótum í Jöklu.

Fimm laxar veiddust fljótt og vel í Jöklu og voru allir yfir 80 cm nema einn. Áður hafði silungsveiðimaður lengst uppi í Jökuldal sett í og landað fyrsta laxinum og var það á lokadegi júní. Að sögn Þrastar Elliðasonar hjá Strengjum þarf ekki að koma á óvart þó að laxinn fari hratt yfir því hásumarsvatn sé í ánni og hitastig árinnar 12-14 gráður.