Lakari veiði í vatnaskilum á sér ástæður

Mark Carnegie t.v. og leiðsögumaður hans Erik Koberling með glæsilega hrygnu af "Klöppinni" í Brennu. Myndin er þó ekki ný.

Minni veiði en oft áður í vatnaskilum bergvatnsáa í Borgarfirði á sér skýringar. Á sama tíma og t.d. Norðurá og Þverá/Kjarrá hafa skilað einhverjum hundruðum löxum meira en á síðasta slaka sumri, hafa Straumar og Brenna, vatnaskil þeirra við Hvítá verið með daufara móti.

Ef við skoðum fyrst tölur, þá gaf Norðurá í fyrra alls 980 laxa sem er afar lélegt á hennar standard þó að framför hafi verið um að ræða frá hörmungunum 2019. Þann 8.9, síðast þegar angling.is setti út viku- og heildartölur þá var Norðurá komin í 1337 laxa og eitthvað mun hún hafa bætt við þegar tölur birtast annað kvöld. Á sama tíma höfðu Straumarnir aðeins gefið 125 laxa skv angling.is. Þar er nú búið að loka þannig að lokatalan verður ekkert mikið hærri. Í fyrra veiddust hins vegar 190 laxar, mun betri veiði sem sagt en í sumar, en samt hafa Straumar oft gefið enn meira. Veiði í þessum vatnaskilasvæðum fer oft eftir árferði, t.d. ef þurrkar lækka mikið vatnsstöðu bergvatnsánna, þá liggur laxinn lengur í skilunum.

Skoðum síðan Þverá/Kjarrá, þann 8.9 hafði áin gefið 1259 laxa sem eins og með Norðurá, er framför frá slöku sumri  í fyrra og hörmungum 2019. Í fyrra veiddust t.d. alls 1027 laxar og við munum eflaust sjá eitthvað hærri tölu á angling.is annað kvöld. Þannig að framförin er augljós þó að enn séu þessar ár langt á eftir sínum betri tölum í gegn um árin. Á sama tíma er Brennan, vatnaskil árinnar við Hvítá, með aðeins 107 laxa þann 8.9. Þó að veitt sé út mánuðinn í Brennu veiðist þar nú aðallega sjóbirtingur og laxatalan er varla að fara að hækka að neinu ráði. Í fyrra veiddust þó 204 laxar á svæðinu sem hefur oft gefið enn meira í betri árum.

En hver gæti verið skýringin á þessu? Aðalsteinn Pétursson hefur verið leiðsögumaður við Þverá/Kjarrá um árabil og hefur eytt þar lunganum af vertíðinni í sumar og haust. Hann sagði í samtali við VoV: „Skýringin er eflaust sú, að í allt sumar hefur Hvítá verið eins og dökk leðja, hvort það var út af mikilli bráð eða hlýindum eða bæði, áin var bara dökkur mökkur og það voru varla skil þó að við í Þverá/Kjarrá værum ekki að upplifa eitthvert vatnsleysi. Þvert á móti. Vatnið varð aldrei svo lítið að það væri að valda vandræðum. En við svona aðstæður er laxinn síður að stoppa lengi í Brennunni.“ Aðalsteinn sagði líka að minna hefði verið af sjóbirtingi í Þverá í sumar en í fyrra. „Það komu samt göngur þegar líða tók á ágúst og það veiddust þá nokkrir alvöru fiskar, 60 til 65 cm, en svo tók að mestu fyrir það,“ bætti hann við.

Nú má alveg hreint leiða getur að því að sama skýring eigi við um Straumana. Skuggi er þarna skammt undan, skil Grímsár við Hvítá. Þar er smá aukning í laxveiði, ríflega 70 laxar þann 8.9 en um 60 í fyrra. Varla marktækt þó og samkvæmt tölum angling.is hefur Grímsá ekki rifið sig upp úr öldudal síðustu sumra..