Valkvíði veiðimanna á vordögum!

Kristján Páll Rafnsson með magnaða bleikju úr Köldukvísl fyrir skemmstu. Mynd Fishpartner

Víða hófst veiði þann 1.apríl og enn víðar hér og þar í yfirstandandi mánuði,Það er í raun með ólíkindum hversu víða er hægt að bleyta færi þótt vorið sé rétt nún að halda innreið sína. Almennt höfum við frétt að veiði hafi farið vel af stað, sérstaklega þar sem egnt er fyrir sjóbirting. Stórir fiskar hafa verið dregnir á þurrt. En við skulum renna yfir þá valkosti sem stangaveiðimenn standa frammi fyrir.

Tungulækur, Gísli Ásgeirsson, Jim Ratcliffe
Opnun Tungulækjar, Gísli Ásgeirsson og Jim Ratcliffe.

Hvar að byrja? SVFR er t.d. með Varmá við Hveragerði og þar hefur veiði farið vel af stað. Vænir fiskar, birtingar, bleikjur og staðbundnir urriðar.

Strengur er sem fyrr með utanumhald á sölu veiðileyfa í hinum fræga Tungulæk. Þar hefur verið rífandi gangur eftir rólegheitin tvo fyrstu daganna.

IO Veiðileyfi eru auðvitað með sína litlu Leirá sem selst æ betur í. Þau Stefán og Harpa eru auk þess með spennandi kosti austur við Laugarvatn þar sem þau selja veiðileyfi í Hólaá, bæði fyrir jörðinni Austurey 1 og Laugardalshólum. Þarna hefur verið glettilega góð veiði á blönduðum fiski, urriða og bleikju og ágætlega vænn fiskur innan um þá smærri.

Veiðikortið er með nokkur svæði þar sem hefja má veiði „þegar ísa leysir“ og verða menn þá bara að fylgjast með áferðinu. Í aprílbyrjun má þar nefna Hraunsfjörð, Syðridalsvatn, Vífilsstaðavatn og Þveit. 15.apríl bætist svo Kleifarvatn við og þann 20.apríl Meðalfellsvatn og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

Veiðitorgið býður Brunná í Öxarfirði, Minnivallalæk, Mýrarkvísl og Ölfusá við Eyrarbakka. Þarna er nokkuð um umboðssölur fyrir leigutaka og ekki á vísan að róa með laus pláss.

Birkir Már Harðarson, Kaldakvísl
Birkir Már Harðarson með gullfallega Köldukvíslarbleikju fyrir skemmstu. Mynd Fishpartner

Veida.is er sömuleiðis að bjóða í Minnivallalæk, Brunná, Mýrarkvísl, auk Brúarár og Galtalækjar. Margt spennandi þar á ferðinni.

SVFK er með Geirlandsána sína og vert að nefna að í henni veiðist birtingur vel fram í mai. Þá er Vesturhóp spennandi kostur með fínni vatnaveiði og góðri aðstöðu. Oftast eitthvað laust hjá þeim félögum þar. Árferði ræður samt þar nokkru um það hversu snemma fer að veiðast….og hvenær ísinn losnar af vatninu.

Lax-á hóf nýlega að bjóða upp á Leirvogsá sem sjóbirtingskost og hefst veiðiskapur þar 15.apríl. Lax-á er auk þess með bleikjuveiði í Ásgarði í Sogi og silungsveiði í Blöndu sem hefst 15.apríl. Svæði sem oft hefur gefið vel en ekki verið sérlega mikið stundan nema af stöku heimamönnum sem vita hvert þeir eiga að sækja fiskinn, sem er oft vænn urriði.

Eldvatn
Vænum birtingi sleppt á ný útí Eldvatn.

Hreggnasi býður sjóbirtingsveiði í neðanverðri Grímsá. Þar byrjaði veiðin frábærlega, en svæðið er ekki ýkja mikið stundað.

Fishpartner félagar eru byrjaðir að setja í stóru bleikjurnar í Köldukvísl þó að enn sé allt á kafi í snjó á þeim slóðum. Hann tekur þó eflaust hratt upp í yfirstandandi árferði. Veiðisvæði Fishpartner í Þingvallavatni, Svörtuklettar, Kárastaðir, Villingavatnsárós og „Tjörnin“ opna á næstunni og þar er oft fínasta veiði með alvöru tröllum á vorin. Þá hefst veiði einnig í ION víkunum tveimur, Þorsteinsvík og Ölfusvatnsárvík, á næstu dögum. Má sömuleiðis búast við hamagangi þar enda stórurriðastofninn sterkur og skilyrði góð.

Fleira mætti nefna, Einar Lúðvíksson er sem fyrr með vorveiði í Tungufljóti og Valgarður Ragnarsson með Húseyjarkvíslina sína. Sama má segja um Ragnar í Hörgslandi og Vatnamótin hans þar sem veiði hófst 1.apríl líkt og í Litluá í Kelduhverfi. Veiði hófst þar með ágætum og miklu af vænum fiski. Finna má allar upplýsingar um ána á vefsíðunni litlaa.is. Og ekki má gleyma Eldvatni í Meðallandi þar sem veiði hófst einnig 1.apríl og gekk vel, og Minnivallalæk hjá leigutakanum Strengjum, en lækurinn er einnig víða í umboðssölu eins og fram hefur komið.

Við erum vonandi ekki að gleyma neinum og ef svo er þá biðjum við forláts. En af þessari upptalningu má glöggt sjá að veiðimanna getur beðið valkvíði, detti þeim til hugar að tryggja sér stöng einhvers staðar á næstunni.