Skúli Kristinsson með rosalegan hausthæng úr Króarhamri í Laxá í Kjós, en Laxá var ein þeirra áa sem koma nokkuð vel til baka eftir hörmungarnar í fyrra.

Mbl.is og Veiðihornið stóðu fyrir rafrænum fundi með frummælendum og pallborði í vikunni. Þar kom eitt og annað merkilegt fram, m.a. sú staðhæfing Bjarna Júlíussonar þess efnis að þrátt fyrir hvað tölur segja, hafi sumarið 2020 verið síst betra en hörmungarsumarið 2019. Margar ár voru þó mun betri án þess að vera að slá í gegn, aðrar voru lakari.

Bjarni, sem hefur verið ötull laxveiðimaður í hálfa öld og tvívegis verið formaður SVFR,  sagði: „Í fyrsta lagi var raun­veru­leg og nátt­úru­leg veiði sum­ars­ins 2020 bein­lín­is öm­ur­leg.  Við vit­um að veiðin 2019 var arfaslök. Upp­gef­in veiði var um 29.000 lax­ar. En nátt­úru­leg veiði þ.e. þegar við drög­um frá laxveiði í haf­beitarán­um og drög­um frá þá laxa sem tví- eða þríveidd­ust, þá var veiðin í fyrra und­ir 20.000 löx­um, senni­lega lé­leg­asta veiði í hálfa öld. Laxveiðin í sum­ar var ekk­ert betri. Heild­ar­veiðin um 35.000 lax­ar, en nátt­úr­leg veiði um 20.000 fisk­ar.“

Þarna dregur Bjarni aftur frá laxa veidda í hafbeitarám og laxa sem eru tví- og þríveiddir. Þar er Eystri Rangá t.d. komin með risamet uppá rúmlega 8000 laxa og ekki allt búið enn. Oft hefur komið fram að 2020 sé á einhvern hátt betra en í fyrra en ekki ef þetta er skoðað í þessu ljósi. Í fyrra voru aðeins fimm ár með fjögurra stafa tölu, sú hæsta með 3048 laxa. Núna eru þær tíu og sú efsta yfir 8000. Þannig að niðurstaðan fyrir veiði á villtum laxi er ekki mikið betri en í fyrra þó að slatti af ám hafi skilað betri veiði en í fyrra. Á sama tíma var slatti af ám lakari og dæmi um átakanlega útkommu. Þannig að þó að umtalsverður bati hafi verið í nokkrum slatta af ám, þá var það ekki nóg til að bæta stöðuna í stóra samhenginu.