Það er skemmtileg frétt um sjóbirtingsgöngur í Sporðaköstum í gær. Þar var m.a. ritað að sjóbirtingurinn í ám utan hins hefðbundna sjóbirtingsríkis í Vestur Skaftafellssýslu hefði tilhneigingu til að ganga mun fyrr, sums staðar jafnvel í júní. Það er ákveðin kenning til fyrir þessu.
Í umræddri frétt segir m.a: „Athygli vekur að nokkrar ár hafa undanfarin ár gefið mikið magn af sjóbirtingi og eru þeir að mæta mun fyrr en í árnar í Vestur-Skaftafellssýslu. Þannig er Vatnsdalsá búin að gefa mikið magn af birtingi í sumar og segir Björn K. Rúnarsson, einn af leigutökum, að þeir hafi byrjað að mæta úr sjó í júní“

Þetta er alveg rétt sem kemur fram á fyrrgreindum veiðimiðli, bæði hefur sjóbirtingur verið að sækja í sig veðrið að minnsta kosti síðasta áratuginn ef ekki lengur og eins virðist hann ganga seinna í árnar í Vestur Skaftafellssýslu. Ein ástæða fyrir því að birtingurinn hefur sótt í sig veðrið er að honum er í auknum mæli sleppt. Hann verður gamall og stór og dauður fiskur gengur ekki ítrekað í árnar til hrygningar.
En að kenningunni. Allar helstu árnar í Vetur Skaftafellssýslu renna út í jökulvötn og sjóbirtingurinn, sem er þekktur fyrir ljósfælni, virðist hrifinn af því að geta falig sig undir jökulvatninu sem liggur ofan á tærara vatninu. Þegar líður á sumar og haust færir hann sig síðan í vaxandi mæli upp í bergvatnsárnar þar sem hrygningin fer fram. Þá er líka oft farið að gæta meiri úrkomu. VoV hefur marg heyrt að Hólmasvæðið í Skaftá geti t.d. verið mjög líflegt í júlí og Vatnamótin fljótlega uppúr því. Undantekningin á þessum slóðum er Eldvatnið. Eldvatn rennur beint til sjávar og þar verður birtings strax var strax í júlí þó að eitthvað ætli hann að sýna sig seinna í ár en vanalega.

Það er athyglisvert einnig, að ár með svipað mynstur eru t.a.m. Húseyjarkvísl og Litlaá. Þær renna einnig í jökulár. Sama má segja um Grímsá og Þverá í Borgarfirði, þær eru með nokkuð öfluga sjóbirtingsstofa, en þeir liggja í skilunum fram eftir öllu sumri. Aðrar ár með birtingi renna beint til sjávar og þar kemur hann fyrr, VoV var t.d. staddur opnun í Laxá í Kjós fyrir nokkrum árum og fyrsti fiskurinn var 8 punda sjóbirtingur dreginn úr Kvíslafossi.
Svo eru staðir sem virðast ekki lúta neinum lögmálum. T.d. Heiðarvatn og Vatnsá ofan Mýrdals, en þar voru menn að veiða stóra niðurgöngubirtinga og spikfeita geldfiska í miðjún júní.í fyrra. Fleiri dæmi þekkjum við að menn veiði væna birtinga í Heiðarvatni þegar komið er vel fram í júní.