Þeir eru margir svona í Laxá í Kjós núna, birtingurinn í blússandi vexti þessi misserin. Verður fróðlegt að sjá hvað þeir stærstu verða stórir á komandi vertíð. Myndin er af FB síðu Hreggnasa.

Litlar laxagöngur voru víða um land í fyrra og í ám eins og Laxá í Kjós töldu kunnugir að meira væri af birtingi í ánni en laxi. Sjóbirtingur hefur verið í mikilli sókn í ánni síðustu ár og nú í vor virðist sannast umrætt mat hinna kunnugu, áin nú á vordögum er smekkfull af birtingi og þeir eru margir stórir.

Í FB færslu á síðu Hreggnasa sem er leigutaki árinnar segir m.a.: „Það er ljóst að Laxá í Kjós er hreinlega full af sjóbirtingi þetta vorið. Þrátt fyrir mjög litla ástundun er vorveiðin nú orðin á fjórða hundrað vænir birtingar! Þetta gefur okkur góðar vonir inn í sumarið, því sjórinn fyrir utan virðist fullur af síli þetta árið. Það er því von á þeim feitum og pattaralegum úr hafi eftir tvo mánuði eða svo.“

Nú hin seinni ár, þegar jafn miklar sveiflur eru í laxagöngum og raun ber vitni þá er auðvitað frábært að sjóbirtingur sé jafn sterkur. Lífshlaup urriða og lax er afar ólíkt þegar kemur að sjógöngu og sem betur fer heldur birtingurinn veiðinni uppi þegar ástandið er eins og það var í fyrra.

Fleiri ár á vestanverðu landinu hafa komið upp með sterka og vaxandi sjóbirtingsstofna, Leirvogsá, Brynjudalsá, Grímsá, Laxá í Leirársveit og Leirá, en sú síðast nefnda hefur vakið sérstaka athygli fyrir það að æ fleiri stórir birtingar veiðast þar nú, sem virðist vera beint afsprengi af því að þar er nú öllum fiski sleppt.