Bókarkápan og Sigurður Héðinn í bakgrunni. Myndina tók Nils Folmer Jörgensen.

Sigurður Héðinn, eða Siggi Haugur eins og margir þekkja hann sem, hefur skrifað veiðibók númer tvö, Sá stóri, sá missti og sá landaði. Bókin er nú komin í dreifingu í verslanir. Fyrri bókin kom í fyrra og fékk góðar undirtektir. Þriðja bókin er í smíðum.

Flugusíður að ofan textasíður að neðan. Myndirnar tók Nils Folmer Jörgensen.

„Þeir sem hafa lesið þessa eru samdóma um að hún sé betri en bókin í fyrra. Það kann að skýrast af því að þessi bók er persónulegri en hin, sem var meira svona á tæknibrautinni. Eftir að hafa skrifað fyrri bókina hef ég líka lært margt, maður er komin með ákveðna þjálfun og skynjar betur hvað maður er að láta frá sér. Á sama tíma er maður að gera meiri kröfur til sín. En fyrir vikið var fæðingin erfiðari,“ sagði Sigurður í samtali við VoV í dag.

Annars er bókin skemtileg blanda af vangaveltum, veiðisögum og fluguhnýtingum. Gamlar flugur og nýjar er þarna að finna. Og með það sem fram kom í inngangi fréttarinnar, að þriðja bókin væri í smíðum, sagði Sigurður: „Já, þú mátt alveg segja frá því, mér finnst ég eiga svo margt ósagt enn, þannig að já, sú þriðja er komin af stað,“ sagði Sigurður.