Litlaá
Sá norski með risann! Svona geta þeir verið að vori í hlýindunum og ætinu í Litluá.

Eins og við greindum frá síðasta sunnudag þá fór veiði afar vel af stað í Litluá í Kelduhverfi. Hefur hún gefið vel alla daga síðan og stórir fiskar í bland. Sá stærsti var þó nokkuð sérstakur sökum líkamsburða!

Jón Tryggvi, umsjónarmaður við Litluá sagði okkur að Norðmenn hefðu verið við veiðar síðustu daga, hópur undir forystu Torkjel Landas, sem veitt hefði í ánni í mörg ár. „Þeir veiða um allan heim en telja Litluá vera toppinn ár hvert. Torkjel fékk sjálfur einn rosalegan og skemmdi það ekki fyrir. Þessi mikli urriði mældist 82,5 cm og 5,7 kg. Þeir hafa fengið marga aðra góða fiska og ekkert lát er á góðri veiði í ánni. Svalt hefur verið við ána fráopnun en oft bjart og fallegt veður,“ sagði Jón Tryggvi og sjá myndina, sjón er sögu ríkari, svona eru þeir að vori í Litluá, hún er hlý og fiskur í æti á vetrum og vori á meðan frændur og frænkur í öðrum ám svelta þar til hlýnar í veðri.