Brúðubílsstjórinn veiddi fyrsta laxinn

Ásgeir Heiðar gerir klárt fyrir Helgu. Myndir -gg.

Helga Steffensen Brúðubílstjóri til áratuga var útnefndur Reykvíkingur ársins á bökkum Elliðaána í morgun. Að hefðbundnum ræðuhöldum loknum, svo og kaffidrykkju gekk hún fram á brún Sjávarfoss í fylgd súpergædsins Ásgeirs Heiðars og innan fárra mínútna lá fyrsti lax sumarsins úr Elliðaánum á bakkanum.

….og ekki leið á löngu!
Veiðikonan fagnar Maríulaxinum á meðan Ásgeir losar úr honum.
Fallegur 5 pundari!

„Vei, fyrsti laxinn minn“, æpti Helga, fórnaði höndum og má segja, betra seint en aldrei að ganga í raðir veiðimanna! Annars var glettilega gott vatn í ánum og hafði augljóslega rignt víðar en í höfuðborginni í gær og s.l. nótt. Ekki mun það þó endast nema að rigni meira. Odd Stenersen, umsjónarmaður FB síðu Elliðaána sagði í samtali við VoV á árbakkanum að það væri ekki mikið gengið af laxi í ána. Slangur þó. „Það eru nokkrir laxar í fossinum núna og eitthvað af fiski komið upp fyrir, en það var skyggnt í morgun niðri á Breiðu og í kvörnunum og sást ekkert. Það getur þó breyst,“ sagði Odd.