Smálax lætur vaða í Fossinn í Elliðaánum. Ath að myndin er ekki ný. Mynd Heimir Óskarsson.

Umsóknarferli til veiðileyfa hjá SVFR er nú í fullum gangi og samkvæmt upplýsingum af vef SVFR þá er ákveðið tema í umsóknum, þ.e.a.s. mestur umsóknarþunginn er á ákveðna tegund veiðisvæða. Kíkjum nánar á.

Á vef SVFR segir m.a. „Eins og undanfarin ár, þá er mestur umsóknarþunginn í Elliðaárnar, en einnig er töluverður umsóknarþungi í Haukadalsá, Straumfjarðará, Gljúfurá, Laugardalsá, Gufudalsá og Flókadalsá…“

Sjá má í hendi sér, að þetta eru að mestu ár með fáar stangir með svokallaðri „sjálfsmennsku, 2 til 6 og fjölskylduvænar, þó að full þjónusta sé í Straumfjarðará og Haukadalsá. Svo eru Elliðaárnar að venju sér á báti með sína sérstöðu. Þetta er í anda þess sem Jón Þór Ólason formaður SVFR sagði í samtali við VoV á síðasta ári, að félagi myndi leggja sig fram að útvega enn meiri fjölbreytni í svæðum af þessu tagi. Leigutaka félagsins á Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi á síðasta ári var einmitt í þeim anda.