Tröll af Laxamýrarsvæðunum

Arnar með 104 cm hænginn af Eskeyjarflúð.

Einn stærsti lax sumarsins veiddist á svæðum Laxárfélagsins í Laxá í Aðaldal nú um helgina. Um var að ræða 104 cm hæng sem að Arnar Guðjónsson setti í á Eskeyjarflúð. Arnar ásamt félaga sínum, Ingvari Hákon Ólafssyni, var í stórræðum, því að auk þess stóra lönduðu þeir þremur til viðbótar, 85, 85 og 96 cm löxum.

96 cm af Núpafossbrún.

Jón Helgi Björnsson á Laxamýri lét  okkur frétt þessa í té með þessum orðum: „Þeir félagar Arnar Guðjónsson og Ingvar Hákon Ólafsson eru að gera góða ferð á Laxamýrarsvæðin síðustu tvo daga. En þeir byrjuðu með því Ingvar fékk  96 cm hrygnu á Núpafossbrún. Seinna fékk svo Arnar 104 cm hæng á Eskeyjarflúð svakalegan bolta. Með þessu tveim fengu þei rtvær hrygnur vel yfir 80 cm. Þannig að þott veiðin hafi verið dræm í sumar gerast ævintýrin enn.“ Þess má geta að sá stærsti tók litla Sunray Shadow.