Laxá í Kjós, Kvíslafoss
Laxá í Kjós. Menn hafa séð það svartara þar, stundum hættir norðurkvíslin í Kvíslafossi að renna.

Menn eru komnir með áhyggjur af vatnsleysi næsta sumar. Hitastig er stanslaust vel yfir frostmarki, úrkoman er rigning og það sér ekki fyrir endann á þessu. Eins næs og það era ð þurfa ekki að grafa bílinn útúr skafli, þá er þessi tíð ávísun á vatnsleysi á komandi sumri.

VoV hitti á förnum vegi gríðarlega reyndan leiðsögumann sem er mest á Borgarfjarðarsvæðinu og hann var ómyrkur í máli. “Það þarf að fara að frjósa með úrkomunni. Það þarf eitthvað að fara að festa. Hingað til hefur það ekki gerst og nú er komið fram í janúasr. Þetta er fáheyrt. Í fyrra bjargaðist það sem bjargað varð með því að það rigndi nánast upp á hvern einasta dag fram í ágúst, þá kom smá pása og svo rigndi allt haustið. En ef að gula skrýmslið fær að troða sér eftir svona vetur, þá býð ég ekki í það,” sagði viðkomandi.

Eyþór kokkur, landskunnur veiðimaður af eldri kynslóðinni (Eyþór Sigmundsson) upplifði ekki þessa “hlýnun jarðar”  vetur, hann sagði okkur oftar en einu sinni að það sem skipti máli væri sú úrkoma sem félli fyrir áramót í formi snjóa, úrkoma sem festi í giljum og gljúfrum fjalla og færi ekki að bráðna fyrr en allt annað væri farið, þegar liðið væri á sumarið.

Nú hefst nýja árið þannig að það er eiginlega sama veðrið og var lengst af sunnan- og vestanlands í fyrra, 10 gráður og súld eða rigning. Ef að það rignir ekki meira og minna allt næsta sumar, þá er voðinn vís. Norðausturlandið lítur litlu  betur út, þegar snjór hefur sest hefur honum skolað rakleiðis burt í næstu hlýindunum, en árferðið næstu vikur skiptir sköpum. Stóru fljótin á Suðurlandi munu varla finna fyrir þessu, en þar eru líka frábærar ár sem gætu liðið fyrir lítið vatn, Stóra Laxá t.d.