Sporðaköst! Myndina tók Aðalsteinn Pétursson

SVFR stendur fyrir haustfagnaði þann 19.október næst komandi sem er næst komandi föstudagur. Þetta er nýlunda hjá SVFR og kvöldið er ekki í hefðbundnum stíl opnu húsa félagsins.

Jón Þór Ólason formaður SVFR sagði í samtali við VoV að kvöldið væri fyrir alla veiðimenn, ekki aðeins félagsmenn hjá SVFR, enda væru válynd veður fram undan og aldrei meiri þörf fyrir veiðimenn að snúa bökum saman og standa saman þegar ýmis kona vá væri fyrir dyrum og nefndi í því sambandi baráttuna við þróunina í fiskeldinu. „Veiðimenn þurfa að standa saman á tímum sem þessum og svona kvöld hugsum við okkur að geti hrist menn saman. Menn hittast og spjalla og svo eru skemmtiatriði til að krydda kvöldið,“ sagði Jón Þór.

Hér kemur svo fréttatilkynning sem að Ari Hermóður Jafetsson framkvæmdastjóri SVFR sendi okkur:  „Haustfagnaður SVFR verður haldinn 19.október næstkomandi. Fagnaðurinn fer fram í Lágmúla 4 í Akóges salnum og opnar húsið klukkan 20:00. Eins og fram hefur komið að þá er þessi fagnaður fyrir alla þá sem hafa gaman af veiði og skemmtun, félagsmenn eður ei. Er þvi tilvalið að hengja vöðlurnar upp í geymslurnar, draga fram spariskóna og pússa þá vel fyrir kvöldið, því það verður hlegið og dansað. Veglegir vinningar verða fyrir fyndnustu og bestu veiðimynd ársins ásamt því að Happahylurinn frægi verður á sínum stað troðfullur af flottum vinningum. Margir landsþekktir grínistar, söngvarar, vísindamenn verða næstum því á svæðinu í boði Karls Örvarssonar. Eggert Skúlason fer yfir nýjustu þáttaröð sína af Sporðarköstum og margt, margt fleira.“