Eins og allir vita þá hefst vertíðin formlega næsta sunnudag, á Páskadag. Þá hefst veiði í all mörgum ám, yfirleitt í sjóbirtingsám, en á nokkrum stöðum einnig með staðbundnum silungi. En horfur með veður eru alls ekki góðar!
Við heyrðum aðeins í Gunnari Óskarssyni formanni Stangaveiðifélags Keflavíkur, en hann og félagar hans opna jafnan Geirlandsá, sem er ein besta sjóbirtingsá landsins og eflaust þótt víkðar væri leitað. Gunnar sagði: „Jú við förum til að opna Geirlandið og vonum að langtímaspáin gangi ekki alveg eftir. Það er spáð frosti um helgina sem á að aukast þegar komið er inn í næstu viku..“
Þeir félagar hafa oft og mörgum sinnum opnað Geirlandsá við hin ýmsu skilyrði. Frægt er fyrir nokkrum árum að þeir fóru með spýtur og grjót niður í Ármót til að koma hreyfingu á örlitla leysingu…og þeim tókst að opna nógu stórar vakir til að kasta útí og það var ekki sökum að spyrja, að sjálfsögðu var birtingurinn á sínum stað!“
Við nánari skoðun eru margir staðir að opna á sunnudaginn. Má nefna Leirá, Lituá, Húseyjarkvísl, Grímsá, Minnivallalækur, Varmá, Eldvatn, Tungufljót, Tungulækur, Geirlandsá Vatnamót, Sogið, Vífilstaðavatn og Hraunsfjörður. Og eflaust fleiri staðir sem við munum reyna að fá fréttir af.
En veðurspáin: Aðfararnótt sunnudags er 5 stiga frost á Klaustri, en komið núll um hádegi og plús einn undir kvöld. Á mánudag er 6 stiga gaddur um nóttina mínus 3 klukkan 6, minus einn um hádegi og mínus 2 undir kvöld. Menn skyldu því ekki reikna með svimandi aflatölum eins og svo oft áður þetta árið….