Langadalsá
Fallegur lax úr Langadalsá. Árið er 2018. Mynd David Thormar.

Guðni Guðbergsson fiskifræðingur hjá Hafró og sá aðili sem hefur hvað bestu yfirsýnina yfir hvað er í gangi hvað varðar okkur stangaveiðimenn reyndist vera til í spádóm fyrir sumarið 2019 þegar eftir því var leitað af okkar hálfu. Hér kemur hluti af því, restin kemur í Veiðislóð, á áskristarsvæðinu okkar.

Guðni segir: „Varðandi væntanlega laxgengd 2019. Í ám NA landi var smálaxagengd og smálaxaveiði með minna móti 2018. Ástæður minni göngu var að hrygningarárgangurinn frá 2012 var mjög lítill. Sá árgangur sem klaktist út 2013 mældist alltaf lítill en hann var uppistaða útgöngunnar 2017 sem skilaði ekki stórri göngu og veiði 2018. Auk þess var vatnshiti lágur á NA- landi og vatnshiti sumarmánaðanna 2015 var með allægsta móti (sem kannski stafaði a.m.k. að hluta af gosi í Holuhrauni). Skilyrði síðan hafa batnað og vatnshiti hækkað. Vorið 2018 gengu fleiri árgangar út en venjulega líkt og gerist þegar hitastig hækkar en sumarið 2018 var með hlýjasta móti. Seiðabúskapur í ám á NA-landi var almennt með besta móti skv. seiðamælingum haustið 2018. Það eru tengsl milli fjölda smálaxa og stórlaxa árið á eftir svo að við eigum ekki von á stórum stórlaxagöngum 2019. Því verður að halda til haga að hlutfall stórlaxa í göngunni hefur farið vaxandi á undanförnum árum sem líklegast stafar að auknum sleppingum (veiða og sleppa á stórlaxi) en nýleg þekking á erfðum stórlaxagensins bendir til þess að hátt veiðiálag á stórlaxi gæti hafa haft áhrif til fækkunar þeirra en að hún sé nú að ganga til baka. Með fjölgun stórlaxa, sem eru að meirihluta hrygnur, hefur seiðaþéttleiki aukist ekki síst á efrihlutum ánna svo þar eru að koma fram jákvæð áhrif breyttrar veiðistjórnunar.

Á Vesturlandi er uppistaðan í veiðinni smálax en stórlaxi fer einnig fjölgandi þar. Sá árgangur sem gekk út 2018 var við eða undir meðaltali í þeim landshluta sem bendir til að gangan 2019 verði tæpleg mjög stór en gæti náð meðalveiði. Taka ber fram að árgangarnir eftir 2015 hafa mælst vel yfir meðallagi þótt kalt sumar 2018 á því landsvæði hafi dregið úr vexti seiða. Vöxtur laxa á fyrsta sumri í sjó hefur verið undir meðaltali á V-landi undanfarin ár en tengsl eru á milli vaxtar og affalla þ.a. að afföll eru minni þegar vöxtur er góður. Endurheimtur á S- og V- landi hafa verið undir meðaltali og með lægra móti 2018. Það er varasamt að leggja of mikið út af því en samt sem áður fylgjast gjarnan að nokkur góð og nokkur slæm ár.“

Meira og nánara frá Guðna á Veiðislóð hér á eftir.