Hnausastrengur, Selur
Heldur óvenjuleg sjón í Hnausastreng, þessi ætti að vera að sveifla flugustöng....

Finnur Jóhannsson Malmquist er að veiðum í Vatnsdalsá um þessar mundir og hann náði í dag myndum af óboðnum gesti í hinum fræga Hnausastreng, þar var kominn selur og augljóst að Kobbi vissi vel hvað hann var að gera því Hnausastrengur er einn veiðisælasti veiðistaður landsins. Engum sögum fer þó um afdrif Kobba, en setið var um hann eins og myndin ber með sér.

Vatnsdalsá, Selur
Þarna er Kobbi á svamli….

Það hefur borið dálítið á því að selir hafi synt upp veiðiár á þessu sumri sem endranær, nokkrir félagar VoV voru t.d. að spjalla á bökkum Fellshyljar á silungasvæði Hofsár fyrr í sumar þegar annar Kobbi skaut upp hausnum. Það er hins vegar míta að ekkert veiðist eftir selaheimsóknir, ritstjóri var eitt sinn að veiðum á Brennunni í Hvítá þegar selur kom á vettvang og elti laxa fram og til baka í góðar tuttugu mínútur, uns hann hann hætti og sakkaði niður ána á ný. Það leið ekki kortér að búið var að landa tveimur löxum og fleiri bættust við áður en morguninn var á enda.