Laxá á Ásum
Laxá á Ásum á kannski eitthvað inni.

Fremur slök heildarveiði hefur verið í vel flestum ám á Norðurlandi, allt frá Húnaflóa og austur í Þistilfjörð. Það fer ekki að rofa til fyrr en í Vopnafirði þar sem marktækur bati er í göngum og veiði. Allt snýst þetta um kraftlausar smálaxagöngur. Sunnan heiða er staðan mun betri.

En þrátt fyrir allt bera menn sig að sjálfsögðu vel eftir atvikum. Við heyrðum í Sturlu Birgissyni, umsjónarmanni og staðarhaldara við Laxá á Ásum í gærkvöldi og hann sagði eftirfarandi: „Það er búið að vera ágætt. Síðasta holl með 28 laxa, 3 dagar. Hollið 6-10 ágúst með 69 laxa. Laxinn er að bilinu 57 – 65 cm. Það eitthvað að ganga inn en ekki mikið komu 3 nýir í morgun. Það eru færri laxar núna enn í fyrra. Ég hef enga útskýringu á því. Vanalega er allt búið að ganga inn á þessum tíma, þetta er búið að vera skrítið tímabil, mikið vatn, kalt ofl. Síðustu 3 ár gekk laxinn fyrr inn, 10-22 júlí er orðin besti tíminn. Áður fyrir var besti tíminn 17 – 28 júlí.“ Til að undirstrika orð Sturlu má geta þess að angling.is birti töluna 467 laxa úr Laxá á Ásum þann 9.ágúst. Á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 637 laxar, eða 170 löxum fleiri. Þá veiddust í ánni 1108 laxar, en stefnir í talsvert lægri tölu nú.

VoV heyrði líka í Jóni Þór Ólasyni formanni SVFR sem var leiðsögumannsstörf norður í Laxá í Aðaldal. „Það er rólegt hérna, heitt í veðri sem stendur og svo vantar bara smálax. Það er meinið,“ sagði Jón Þór.

Kominn er miður ágúst og þó að aldrei megi segja aldrei, þá minnka líkurnar með hverjum deginum að einhverskonar viðsnúningur verði í smálaxagöngum og þetta tímabil muni sigla hægt og rólega til lands með veiðimönnum berjandi á fiskum sem þegar eru komnir í ána og margir þeirra fyrir löngu síðan! En það er þó ekkert alslæmt hér á ferðinni, sunnan heiða hafa smálaxagöngur verið yfir höfuð nokkuð góðar og sums staðar beinlínis sterkar og fínar. En gæðunum er greinilegamisskipt á milli landshluta.