Hnúðlaxhrygnan er augljóslega efst á myndinni, stærst, en furðu lík sjóbleikju. Hængurinn er hins vegar auðþekktari. Mynd Súddi.

Sigurður Staples, „Súddi“, umsjónarmaður í Breiðdalsá veiddi nýverið hnúðlax fyrir austan og það er fjarri því sá fyrsti og örugglega ekki sá síðasti. Hnúðlaxar hafa sest hér að síðustu árin og fundist hafa merki um hrygningu. Þetta er Kyrrahafstegund sem Rússar bera ábyrgð á að hafa flutt yfir til okkar. Takk fyrir það Rússar, þetta er aðskotadýr í náttúrunni og ekki vitað hvað frekara landnám getur haft í för með sér.

Myndina sem við birtum hér tók Súddi við Norðfjarðará, þar sem hann veiddi laxinn. Stundum hefur verið talað um að meira sé af hnúðlaxi heldur en menn átti sig á vegna þess að hrygnan sé svo lík sjóbleikju að menn þekkja ekki muninn. Myndin hér gefur það sama til kynna. Vissulega er hnúðlaxhrygnan, sem er efsti fiskurinn, nauðalíka sjóbleikju, en hún er 1,6 kg og sjóbleikjur af þeirri stærð eru ekki sjaldgæfar. Hængur hnúðlaxins hefur hins vegar það útlit að það dettur engum í hug að eitthvað annað sé á ferðinni.

Súddi sagði okkur að þetta væri fjórði slíki fiskurinn sem hann veiddi síðustu fimm árin og hin tilvikin voru í Breiðdalsá. Í einu tilvikanna, fengu Súddi og félagi tvo slíka í ósnum, fyrst hrygnu og síðan hæng tíu mínútum seinna. Til samanburðar á myndinni, hnúðlaxinn er 1,6 kg, bleikjurnar 0,6 og 0,8 kg.

Sem fyrr segir er þessi tegund farin að hrygna í íslenskum ám og byrjaði fyrir allnokkru að gera slíkt hið sama í ám í Skandinavíu. Í fyrra bar óvenjumikið á hnúðlaxi og frétt barst þar sem átta slíkir fiskar veiddust á sama deginum í sama hylnum í Bakkaá í Bakkaflóa. Þá veiddust þeir í tugatali útum allt land, aðallega þó fyrir austan….og einnig í Soginu!. Sama var uppi á teningnum í hitteðfyrra. Þessi ófögnuður er líklega kominn til að vera.