Síðasta veiðivika markaðist nokkuð að erfiðum skilyrðum því víða um land voru mikil hlýindi og sólríkt veður sem er ekki það besta. En það eru miklar sveiflur í gangi og viss svæði greinilega heitari en önnur… Hér kryfjum við ítarlega vikutölurnar…

Þverá/Kjarrá vermir ekki lengur toppsætið, Ytri Rangá hrifsaði það til sín með flottri viku þar sem 668 löxum var landað. Mikill skriður kominn á veiðina þar og smávegis glæddist líka í Eystri Rangá eftir fádæma rólegheit. Miðfjarðará er komin í annað sætið með furðu góða viku miðað við erfið skilyrði og Þverá/Kjarrá því komin í þriðja sætið eftir róelgustu vikuna í all nokkurn tíma. Norðurá varmeð þokkalega viku og kom sér með því í fjögurra stafa tölu. Annars gefa nokkrar tölur til kynna að smálax er víða, einkum norðanlands, aðeins að spýta í, en þó vantar enn kraft í göngurnar og spurning hvort að seinni straumur júlímánaðar skili einhverju. Áhrif hans gæta þessa daganna. Ef ekki gæti þetta orðið erfiður seinni hluti norðanlands og norðaustan, en menn á þeim slóðum örvænta ekki enn, því oft skila smálaxinn sé seint þar.

Annars má glöggt sjá hvar best gengur, flestar árnar sem eru með betri tölu en á sama tíma í fyrra eru á Suðuvestur og Vesturlandi, en þó ekki lengra en upp í Borgarfjörð , því fremur rólegt er vestur fyrir Mýrar þó að þokkalegt sé og Dalaárnar sem slógu í gegn í smálaxahallærinu í fyrra eru nú ekki svipur hjá sjón miðað við þá….þó að þokkalegt sé að afa í þeim. Þegar norður er komið eru þær færri sem hafa boðið upp á betri kost en síðasta ár og þar kemur eflaust til að smálaxaleysið í fyrra leiðir af sér stórlaxaleysi í ár. Þó eru undantekningar, Laxá á Ásum, Selá í Vopnafirði skjóta upp í hugann.

Núna, þegar komið er fram yfir miðjan júlí eða svo þá er fróðlegt að skoða landslagið og miða þar við viðmiðunarár þar sem angling.is birtir vikulegar tölur. Við biðum aðeins lengur núna en síðast með þessa samantekt til þess að hafa sem flestar með og núna eru þær líklega allar inni að Laxá í Aðaldal og Laugardalsá undanskyldum.

Veiðislóð hafði því vikutölur 30 tölur til að vinna með og í 6 tilvikum voru vikutölurnar betri en í vikunni á undan, í 22 tilvikum lakari. Í tveimur ám var vikutalan hin sama og í fyrri viku. Séu skoðaðar heildartölur og bornar við sama tíma í fyrra þá höfðum við slíkt viðmið í 30 ám einnig og voru nú 12 betri en þá, 18 lakari.

Við skulum líta á statistíkina eftir síðustu veiðiviku, kryfja til mergjar og bera saman við sama tíma í fyrra. Víða hafði verið góður stígandi frá fyrri viku ,en skilyrði gerðust mjög slæm og það hafði áhrif á veiðitölurnar án nokkurs vafa. Eins, að smálaxagöngurnar norðan heiða eru enn sem komið er fremur kraftlitlar.

Ytri Rangá, Einar Falur
Ytri Rangá er hástökkvari vikunnar. Á þessari frábæru mynd Einars Fals Ingólfssonar má sjá fjöruga glímu við lax í ánni.

Ytri Rangá. Risastökk þar og 668 laxa vika. (332, 205 og 215 laxar í vikunum á undan. Áin þá komin í 1570 laxa en hafði gefið 2549 stykki á sama tíma í fyrra. Þessi laxagusa kom Ytri Rangá í toppsætið yfir fjölda veiddra laxa.

Miðfjarðará. Vikuveiðin var mjög góð, 256 laxar(453, 298, 180 og 101). Mikill stígandi, einstakur yfir landið, hafði verið en dalaði nokkuð vegna slæmra skilyrða.  Fór í 1458 laxa á 10 stangir. Verið líflegt í Miðfjarðará en hún er samt nokkuð frá sinni tölu frá sama tíma í fyrra, þegar 1996 laxar höfðu komið á land.

Þverá/Kjarrá. Vikan gaf 74 laxa (237, 345, 248 og 152). Alls vor komnir 1312 laxar á land í gærkvöldi, það dalaði verulega vegna slæmra skilyrða, en á sama tíma í fyrra voru þó komnir 1300 laxar á land þannig að áin er enn yfir veiði sama tíma í fyrra. Þverá/Kjarrá er skráð með 14 stangir.

Norðurá. Vikan gaf 129 laxa, (172,219, 184 og 158) Mjög jöfn veiðin í Norðurá síðustu vikurnar og þetta verður að teljast gott miðað við hlýindi og bjart veður. Alls voru í gærkvöldi komnir 1095 laxar í bók. Í fyrra var sama tala 953, sem sagt betra nú. Norðurá er skráð hjá angling.is með 12 stangir.

Blanda. Síðasta vika skilaði 168 löxum (231,143 og 102 laxar vikurnar á undan), heildartalan því komin í 913 laxa. Þrátt fyrir þokkalegar vikutölur munar afar miklu á sama tíma í fyrra þegar, skv angling.is, var kominn 1681 lax á land. Blanda var skráð með 4 stangir framan af á angling.is, en nú er keyrt á öllum 14 stöngum árinnar.

Langá. Vikan var góð m.t.t. skilyrða og mikið er af laxi. Tala vikunar var 142 laxar, ( 199, 201 og 170 vikurnar á undan) Heildartalan 873 laxar og var á sama tíma í fyrra 731 lax. Langá er skráð með tíu stangir.

Haffjarðará. Vikan gaf 123 laxa sem er mjög gott miðað við skilyrði sem voru yfirleitt óhagstæð, (127,152 og 84 í vikunum þar á undan). Áin fór í 670 laxa. Á sama tíma í fyrra voru komnir 820 laxar á land. Haffjarðará er skráð með 6 stangir.

Grímsá. Hún er á góðu róli en vikan var samt sú lakasta í nokkurn tíma, 91 lax skilaði sér í bók, (142,128 og 112 laxar í vikunum á undan). Áin er nú komin í 594 laxa, en sama tala í fyrra var 272 laxar. Grímsá er skráð fyrir 8 stöngum.

Elliðaárnar. Vikan var fín, 102 laxar, (130, 107 og 110 laxar í vikunum á undan). Heildartalan núna 577 laxar en var 455 laxar á sama tíma í fyrra. Elliðaárnar voru með fjórar stangir framan af,en sex stangir að undanförnu.

Laxá á Ásum. Þar gaf eftir. Vikan gaf 63 laxa, (133, 107, 79 og 31 lax(ar) í fyrri  vikum). Áin var í gærkvöldi með 438 laxa, en 291 lax á sama tíma í fyrra. Laxá er skráð með fjórar stangir.

Laxá í Kjós. Hún var með viku upp á 69 laxa (93, 61, 114 og 45 laxa í fyrri vikum. Laxá var þá komin í 413 laxa, en á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 254 laxar.

Selá. Hún hefur tekiðþokkalega við sér síðustu vikurnar. Vikan nú gaf 123 laxa sem er besta vikan til þessa (110, 95 og 27 í vikunum á undan). Heildartalan nú 390 laxar en voru 366 á sama tíma í fyrra. Sex stangir í Selá.

Víðidalsá. Vikutalan hennar var 57 laxar, (85, 82, 76 og 55 laxar síðustu vikurnar. Heildartalan hennar nú 372 laxar en var 520 laxar í fyrra. 8 stangir skrifaðar á Víðidalsá.

Eystri Rangá. Eitthvað lítillega að koma til, vonandi vísir að einhverju meira. Vikan þar gaf nú 137 laxa, (56, 47, 66 og 22 laxar vikurnar þar fyrir framan). Áin fór í 338 laxa, en sama tala í fyrra var 1885 laxar.

Laxá í Leirársveit. Rólegt en þó 80 laxa vika, sú besta til þessa (64, 61 og 54 vikurnar á undan). Heildartalan 287 laxar en voru 207 á sama tíma í fyrra.

Vatnsdalsá. Jöfn veiði en róleg. Vikan gaf  52 laxa,(65, 42, 48 og 34 laxar vikurnar þar á undan). Áin færðist upp í 267 laxa. Sambærileg tala frá síðasta ári var 425 laxar. Sex stanga á.

Flóka. Þar var slakt í liðinni viku, talan var 22 laxar, (47, 51 og 83 laxa vikurnar á undan). Áin er komin í 261 lax, en 220 laxar voru á sama tíma í fyrra. Betra, þrátt fyrir dalandi vikuveiði. Þrjár stangir.

Stóra Laxá. Ekki var nú vikan alveg nógu góð austur í Hreppum, en þó mun betri en vikan á undan. Vikutalan var 52 laxar, (10, 46 og 117 laxar í fyrri vikum). Áin þá komin í 257 laxa. Á sömu dagsetningu í fyrra voru komnir 140 laxar á land. Tíu stangir.

Hítará. Aðeins að hressast eftir rólegheit framan af. Vikan gaf 67 laxa, (73, 49, 23 og 10 laxar í vikunum á undan). Jöfn veiði síðasta hálfa mánuðinn. Með þessu færðist hún upp í 241 lax, en í fyrra var hún með 488 á sama tíma. Fjórar stangir eru skráðar á Hítará.

Haukadalsá. Hún var með 54 laxa viku, (48, 33, 41 og 27 laxar vikurnar á undan)  Áin hefur gefið 219 laxa. Á sama tíma í fyrra voru komnir 534 laxar úr ánni. Fimm stangir.

Hofsá, menn bíða eftir að sjá framvindu hennar eftir öldudal síðustu sumra. Hún byrjaði vel, en lítið í gangi síðan, vikan skilaði 46 löxum, (59, 40 og 35 laxar á þremur fyrri vikum). Alls þá komnir 180 laxar á 6 stangir, en sama tíma í fyrra hafði 215 löxum verið landað. Það þótti arfa slakt þannig að ekki eru horfur á því að áin sé að koma upp aftur þetta árið.

Laxá í Dölum. Vikan gaf 84 laxa sem er lang besta vikan til þessa, (33, 56 og 25 laxar í fyrri vikum). Alls því núna 209 laxar, en sama tala í fyrra var 451 lax. Fjórar stangir í ánni.

Straumfjarðará.  Vikan í henni gaf 44 laxa og það er að heyra að það vanti kraft í smálaxagöngur, (51, 16, 42 og 18 í vikunum á undan). Hún er núna með 171 lax á þrjár stangir en á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 145 laxar. Hún er því þrátt fyrir rólegheitin framan af komin með betri tölu en á sama tíma í fyrra.

Jökla. Vikan gaf 50 laxa aðra vikuna í röð, það er því líf í Jöklu gömlu, (50, 18 og 12 laxar vikurnar á undan). Alls 130 laxar en í fyrra voru þetta 210 laxar á sama tíma.

Deildará. Vikan gaf 25 laxa, (27, 34 og 23 laxar í vikunum á undan). Komin í 118 laxa en tala frá sama tíma í fyrra liggur ekki fyrir. Þrjár stangir.Við höfum ekki samanburðartölu frá síðasta ári, en munum glöggt að hún fór fanta vel af stað með fínar stórlaxagöngur.

Svalbarðsá. Byrjaði vel, en síðasta vikan gaf 31 lax, (32, 16 laxar í vikunum á undan, en 24 þar á undan í „stuttri“ viku) Með þessu fór áin í 103 laxa. Á sama tíma í fyrra hafði 161 laxi verið landað.

Hrútafjarðará. Erfitt í Hrútu. Vikan gaf aðeins 10 laxa, (64,13 og 12 laxa vikur á undan) Er með 80 laxa á þrjár stangir. Á sama tíma í fyrra voru 220 laxar komnir á land.

Breiðdalsá. Enn er afar rólegt í Breiðdalnum, en hlýtur að fara að koma til. Vikan gaf 10 laxa aðra vikuna í röð, (Þrjár síðustu vikur gáfu 10, 8 og 12 laxa á 6 stangir).  Alls komnir 40 laxar á land, en á sama tíma í fyrra voru  120 laxar komnir á land.

Svartá. Vikan skilaði 9 löxum,( 17, 6 og 5 laxar á fyrri vikum á fjórar stangir). Áin þá komin í 37 laxa en í fyrra höfðu 145 laxar veiðst á sama tíma.

Fnjóská. Slök sem fyrr það sem af er. Vikan gaf aðeins 4 laxa, (7, 6 og 7 laxar vikurnar á undan).  Eiginlega ferleg útkoma. Alls frá opnun 29 laxar en voru 119 á sama tíma í fyrra.