Gamall drjóli, 84 cm, hvað ætli hann sé gamall? Hann fær allavega að lifa sitt skeið, Reynir sleppti honum.

Við höfum stundum sagt það í sumar og vor að sem betur fer er fleira fiskur en lax. Silungsveiði hefur bætt margan skaðan og stundum í laxveiðiánum líka, sem vísar okkur á upplifun Reynis Friðrikssonar sem fékk sannkallaðan urriðarisa í Eystri Rangá í vikunni. Þar kom fram mjög skýrt að ísaldargenin eru ekki bara í Þingvallavatni og Vestur Skaftafellssýslu.

„Þetta var svakalegur fiskur, 84 sentimetrar og hann tók Hammer í Moldarhyl,“ sagði Reynir sem er virkur leiðsögumaður veiðimanna í báðum Rangánum. Eystri Rangá er ekki þekkt fyrir stóra urriða af þessu tagi, sú Ytri er það hins vegar og hefur urriðasvæðið ofan við Árbæjarfoss verið vaxandi síðustu árin. Veiðin í Eystri Rangá hefur verið frábær síðustu daga og Ytri hefur verið að koma verulega til. Þarna er allt að gerast í þessu óvenjulega og slaka laxveiðisumri.