Tungulækur, Guðmundur Atli
Fiskurinn er jú flottur, en myndin sýnir kannski einna best aðstæðurnar í dag, slagveður og leiðindi. En fyrir vikið fór hann að taka... Mynd Guðmundur Atli Ásgeirsson.

Dagur tvö í nýju vertíðinni var bæði og, ekki samur og í gær, þau svæði sem voru best í gær gáfu eftir vegna veðurs, á meðan þau (Tungulækur) sem búist hafði verið við miklu meiri veiði, reif sig upp…..

Málið er að Tungulækur stendur af sér mikil vatnsveður, allt hans vatn er undan hrauni og það eru ekki til í honum dragáreinkenni. Hann bólgnaði því bara píulítið. Og þar sem að það dró fyrir sólu og gerði slyddu fyrst og svo rigningarslagveður, þá fór fiskur að taka betur. Guðmundur Atli leiðsögumaður á staðnum taldi 50 í gær vera helmingi of lítið ef ekki meira, en í dag voru þeir 90, meira í takt við væntingar.

Á sama tíma var þetta lakara á öðrum svæðum, enda dragár að taka breytingum í slagveðri. Sigurberg Guðbrandsson sagði okkur t.d. að í Tungufljóti hefðu aðeins sex bæst við og áin væri að hlaupa í vöxt. Hann sagði þá félaga ekki hafa fundið afgerandi torfur af fiski eins og stundum, menn hefði rekið í fiska á stangli í Syðri Hólma og Flögubakka.

Ólafur Guðmundsson, sem var meðal þeirra sem stóðu að ríflega 70 fiska opnun í Vatnamótum, skrapp í morgun landaði sex fiskum, en svo var allt saman orðið ómögulegt, „það er allt á floti og vatnið litað“ sagði Ólafur.

Keflvíkingarnir í Geirlandsá litu út um gluggann og ákváðu að dytta frekar að veiðihúsinu. Áin að vaða upp og orðin lituð. Auðvelt val þegar ríflega 70 hafði verið landað á fyrri degi.