Þingeyingur
Úff! 80 cm birtingur úr Hauksholu. Á Þingeying nr 4!

Við höfum verið með vísiteringar í nokkrar ár síðustu sumur, verið með nokkurskonar dagbækur fyrir þær vegna þess að okkur þykir vænt um þær og með því að heimsækja oft opnast skilinngur og reynsla fyrir viðkomandi svæði og hægt er að miðla þeirri reynslu. Ein af þessum ám er hið stóbrotna uppáhald okkar Vatnsá í Heiðardal, ofan Mýrdals við Vík.

Herdís Benediktsdóttir með 62 cm hæng úr Frúarhyl….

Við erum sem sagt nýkomin heim úr tveggja daga veiði, Búið að vera vatnslítið í nokkurn tíma og áin er viðkvæm fyrir því. Verður erfið vissulega. En það haugrigndi á undan okkur og daginn sem við komum. Þetta er það sem allir vilja. Fyrsti hálfi dagurinn var frekar rólegur, við geymdum Frúarhyl, besta staðinn, til ljósaskiptanna sem er snilldarbragð í hvaða á sem er. Fórum víða og urðum vör við fisk í Hauksholu og öðruð stað nokkru neðar.  En í Frúarhyl um kvöldið, 67 cm birtingur og annar flaug af í fjórða stökki. Myrkrið gaf ekkert að þessu sinni.

Morgun heila dagsins. Enginn vaknaður á undan ritstjóra. Sól, kyrrð, lítill fuglasöngur. ??? Hásumar liðið? Já. Það var staðfest þarna. Fyrst að enginn var vaknaður þá dró ritstjóri á sig gönguskó, tók með sér eina stöng og landaði þremur af fjórum sem tóku næsta klukkutímann. Oft er það sá sem slapp sem að skilur mest eftir sig. Og það var núna. Þeir sem náðust voru 58, 62 og 66 cm…sá sem slapp var ca 80, hann var fiskur númer tvö sem tók. 62 cm kominn á land og ekkert stress eða hvað? Allt var þetta tekið  á tommulangan Þjóðverja. Þessi fiskur var ekki lengi á, kannski 10-20 sekúndur, hann mjakaði sér hægt upp hylinn og snéri sér síðan snögglega við og óð niður hylinn með fádæma hraða…..flaug síðan uppúr, hærra en ritstjóri hefur séð lax stökkva fyrr!  Í stökkinu losnaði flugan og hún ásamt allri línunni kom fljúgandi í fangið á ritstjóra…eftir stóð hann skellihlægjandi með línuna í flækju yfir hausnum og fluguna í húfunni.

Vatnsá
70 cm hængur úr Vatnsá.

Svo loksins vaknaði tengasonurinn og landaði einum í viðbót, 58 cm hrygnu og síðan 80 cm birtingi í Hauksholu undir kvöld. Þar höfðu sýnt sig fiskar og vel þess virði að taka aksturinn niður eftir og vaða ána nokkrum sinnum. Hauksholan hefur oft gefið okkur veiði. Birtingurinn var drama, Það er ekki auðvelt að landa í Hauksholu án háfs og fyrir tilstilli sérvisku þá notum við aldrei háf. Allt skal lenda í krumlunni, sama hvað setur. Ritstjóri þurfti að standa undir háum bakka i vatni upp í klof í flughálum leir og þegar tengdi renndi dýrinu í tólfta skiptið fram hjá þá stóð krumlan sig.

Síðasta morgunin var tveimur landað. Þessum tíbíska „eftir næturhvíld“ laxi í Frúarhyl, frúin landaði honum og tók hann í fyrsta kasti, síðan djöflaðist tengdi á hylnum þangað til að hann setti loks í fisk á áttundu flugu og reyndist það 62 cm birtingur með þess háttar áverka á kvið að við höfum aldrei séð annað eins og erfitt að spá í hvað hafi valdið. Við birtum þá mynd með annarri frétt.

En sem sagt, við hittum á ána með afskaplega hagstæðum hætti. Níu fiskar landaðir, aldrei nema ein stöng að veiða í einu. Sex laxar, 58-70 cm og þrír birtingar 62-80 cm. Seinni nóttina héldu refir nánast vöku fyrir okkur, gaggandi sín á milli og hefði verið frábært að vera fluga á vegg og heyra hvað þeir voru að spá….

Með þessari veiði voru komnir hátt í 30 laxar á land. Þetta er síðsumarsá og bara gott miðað við árstíma. Þeir sem á eftir koma geta hlakkað til. En vonandi dreifir laxinn sér betur, eini vankanturinn við þessa á er hvað fiskur safnast allur (eða mest allur) á einn stað….en þeir sem þekkja ána vita að Þegar líður fram á haust þá dreifir hann sér betur.