Laugardalsá
Laugardalsá er falleg og gjöful laxveiðiá í Ísafjarðardjúpinu. Myndin er fengin að láni frá vef SVFR.

Stangaveiðifélag Reykjavíkur hefur tekið Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi á leigu til næstu fjögurra ára. Síðustu ár hefur Guðmundur Atli Ásgeirsson haft ána á sínum snærum, en þetta er gjöful og kunn laxveiðiá sem býður uppp á ýmis tækifæri.

Jón Þór Ólason formaður SVFR sagði í samtali við VoV að það að taka á leigu á eins og Laugardalsá væru slegnar tvær flugur í einu höggi þegar kæmi að þeim áherslum sem hann hefði talað fyrir er hann bauð sig fram til formanns s.l. vetur. Hann hefði þá lagt ríka áherslu á aðkomu sterkra fjöldasamtaka á borð við SVFR að baráttunni gegn fiskeldinu og þar er Ísafjarðardjúpið aldeilis í eldlínunni, og eins að SVFR myndi leggja æ ríkari áhersku á að tryggja sér veiðisvæði sem að væru fjölskylduvæn og byðu uppá að fjölskyldur gætu farið saman og veitt, en auk þess að leigja ána, tekur félagið einnig við vötnunum tveim, Laugarbólsvatni og Efstadalsvatni, sem áin rennur úr og í þeim er mikið af silungi. Auk þessa hefði veiðihúsið verið endurbætt til muna að þar ætti öllum að líða vel. „En hvað fiskeldinu viðvíkur þá munum við verja Laugardalsá með kjafti og klóm gegn fiskeldisvánni,“ sagði Jón Þór.