„Opnendur“ Hölknár í Þistilfirði voru að ljúka veiðum í dag og að sögn þeirra var veiðin lífleg og opnunin „metopnun“ í ánni. Það var ekkert annað.

Við fengum skeyti frá Elvari Erni Friðrikssyni veiðileiðsögumanni sem var þar að veiðum og hann sagði eftirfarandi: „Vorum að klára opnun í Hölkná og fengust 13 laxar á stangirnar 2. Þetta er metopnun í Hölkná og veit á afar gott fyrir sumarið. Þetta voru 12 stórlaxar og 1 smálax.“
Við má bæta að ár í nágrenninu hafa verið með misjafnar opnanir, Sandá verið tiltölulega róleg þó að fiskar hafi náðst þar á land, Ormarsá einnig með lakari opnunardaga en oft áður. Hafralónsá hins vegar lífleg og nú bíðum við eftir tölum úr opnun Svalbarðsár.










