Hnúðlaxinn er býsna áberandi í sumar, eins og búist var við

Þrír hnúðlaxana sem Súddi og félagar veiddu í Fögruhlíðarósi sumarið 2019. Það er mál manna að neðsti fiskurinn sé bleikja og sést þá enn frekar hversu auðvelt það er að villast á milli tegunda.

Eins og búið var að spá fyrir um, þá er núna yfirstandandi hnúðlaxaár í íslenskum ám. Lífsmynstur þeirra er slíkt að annað hvert ár ber mikið á þeim, en lítið inn á milli. Það var allt fullt af þeim 2019 og svo er aftur allt vaðandi í þeim núna.

Við gripum það úr lausu lofti í vikunni að hnúðlaxar hefðu verið skráðir í 18 ám þar sem af er sumri. Sporðaköst greindu frá því að Norðausturhornið og Sogið væru heitir staðir, ekki hvað síst Hofsá með 11 skráða. Það sama var uppi á teningunum 2019, sömu árnar, en kvikindin samt að veiðast útum allt í öllum landshlutu, Núna getum við bætt Breiðdalsá við listann, en þar veiddist þessi hrygna sem myndin sýnir og Jón Skelfir birti á FB. Hrygnunar líkjast stundum sjóbleikjum, en dílar á sporði koma upp um þær. Það ruglast enginn hins vega á hængunum, ljótir, dökkir og með stóra kryppu og álíka umtalsverðan krók.

Til upprifjunar þá eiga þessir Kyrrahafslaxar uppruna sinn Atlantshafsmegin með því að Rússar settu þá í rússneskar ár. Einhverra hluta vegna. Hvílík hneisa og heimska. Þeir hafa síðan dreift sér víða um Evrópu, fyrst í litlum mæli, en í stórurm, stórum mæli hin seinni ár. Norðmenn hafa t.d. gefist upp á að reyna að uppræta þá og ekki liggur fyrir með hvaða hætti þeir keppa við og skemma fyrir tegundum sem fyrir eru, þ.e.a.s. laxi, urriða og bleikju. Við bætist stórfellt landnám flundru um allt land sem hrygnir neðarlega í fersksvatnskerfum, líkt og hnúðlaxinn, en þó hefur fundist hnúðlax hér langt inni í landi, 2019 var t.d. einn í Hólaá í Biskupstungum, 40 mk frá sjó og einn veiddist nýlega á Spóastöðum í Brúará.