Birtingur veður upp ána með Stefán á hælunum. Mynd HHÞ

Leirá litla í Leirársveit var hvorki fiskum eða veiðmönnum að neinu gagni í hitum og þurrkum sumarsins, en með vætutíðinni að undanförnu er allt breytt, nóg vatn og fiskur að ganga.

Stefán Sigurðsson með einn nettan, margir voru þó stærri. Mynd HHÞ.

Þetta staðfesti Stefán Sigurðsson, sem er leigutaki árinnar ásamt eiginkonu sinni Hörpu Hlín Þórðardóttur með fyrirtækið IO veiðileyfi. Eitthvað hafa veiðimenn haft litla tiltrú því á dögunum var nokkuð af lausum dögum og hjónin skelltu sér í ána eina kvöldstund, enda ekki lengi verið að keyra úr Kópavoginum upp í Leirársveit. Er skemmst frá að segja að fiskur var víða, bæði lax og birtingur, þó meira af sjóbirtingi en laxi og vatnsbúskapur með miklum ágætum eins og sjá má af meðfylgjandi myndum sem VoV fékk að láni frá IO.