Það er fínasti gangur í Vopnafirðinum, Selá var með einhverja bestu opnun sem menn muna og Hofsá fór líka vel af stað. Þar var fiskur um alla á og nokkrir fallegir komu á land.

Ekki höfum við tölu úr Hofsá, en veiði fór þar mjög vel af stað. Karen Þórólfsdóttir veiddi fyrsta laxinn á sumrinu, 94 sentimetra grálúsugan lax. Vonandi að það gefi tóninn fyrir komandi meðalvigt! Af Selá er það að segja að um helgina voru komnir 45 laxar á land, en stóru tíðindin kannski frekar að 90 höfðu gengið upp fyrir teljarann í Selárfossi, en menn muna varla eftir annari eins gengd upp fyrir, því þó nú sé 2.júlí var þessi tala komin á meðan enn var aðeins júní.