Agnar Þór Guðmundsson með fyrsta lax sumarsins úr Laxá í Kjós, laxinn tók Sunray á Fossbreiðu.

Veiði byrjaði í Miðfjarðará, Eystri-Rangá og Laxá í Kjós í morg­un. All nokkuð er síðan að laxar fóru að láta á sér kræla í öllum ánum og því voru væntingar hóflega góðar. Þrír lax­ar veidd­ust í Miðfjarðará í morg­un og nokkrir töpuðust. Þá var líflegt í Eystri Rangá og Laxá í Kjós slapp vel fyrir horn miðað við hrikalegar aðstæður.

Guðveig Elísdóttir með 78 cm hrygnu af Fossbreiðu.

Haraldur Eiríksson var á vettvangi í Kjósinni og sagði hann aðstæður hafa verið verulega erfiðar. Í samtali við VoV sagði hann: „Þetta voru 3 laxar landaðir og annað eins misst í gríðarlega erfiðum aðstæðum. Áin var vaxandi í allan morgun og undir hádegi orðin óveiðandi sökum úrkomu og vatnavaxta. Tveir komu af Fossbreiðu og einn úr Króarhamri á efsta svæðinu. Laxarnir voru 62,68 og 78 cm langir. Stór lax misstist á Fossbreiðu eftir nokkuð langa viðureign.“ Bætti Haraldur við að áin hefði verið nánast hættuleg svo kröftug var hún og undir hádegið nánast óveiðandi. En Laxá getur verið jafn fljót að sjatna og hún er að vaxa.

Þrír laxar var einnig lokatala fyrstu vaktar í Miðfjarðará. Nokkrir láku af. Einn kom úr Austurá en tveir úr Vesturá. Menn hafa séð þó nokkuð af fiski að undanförnu og mun víðar heldur en þar sem morgunlaxarnir veiddust.

Þá voru að minnsta kosti átta laxar dregnir á þurrt í Eystri Rangá skv upplýsingum frá Jóhanni Davíð Snorrasyni sem heldur úti m.a. upplýsingum um hluta af sölu veiðileyfa í gegn um FB síðu Eystri Rangár. Júníveiðin í Eystri Rangá er fyrst og fremst klakveiði þar sem safnað er saman stórlaxagenunum til undaneldis.

Ólafur Johnson, einn leigutaka Laxár í Leirársveit með þann fyrsta úr ánni í gærmorgun, 88 cm hæng!

Þá má við þetta bæta, að Laxá í Leirársveit var opnuð í gærmorgun. Mikið vatn var í ánni og aðstæður fremur krefjandi. en fjórum löxum tókst að landa, þremur á fyrri vaktinni og einum á þeirri seinni. Nokkrir sluppu að venju. Í morgun komu síðan fjórir á land úr Laxfossi, þannig að byrjunin í ánni telst býsna lífleg.