Lokatalan í Norðurá komin

Norðurá, rétt ofan Glanna. Áin var hæstu plústöluna af sjálfbæru ánum. - Mynd Heimir Óskarsson

Það er smá bið á síðustu lokatölunum úr íslensku laxveiðiánum, en Norðurártalan er þó loks komin á angling.is og vantar þá að vísu örfáar í viðbót, en kannski eru þær mikilvægustu sem enn vantar, tölur úr Grímsá og Svalbarðsá.

Lokatalan úr Norðurá var sem sagt 1342 laxar sem hlýtur að teljast viðunandi miðað við hversu slakar smálaxagöngurnar voru og hvað þurrkarnir léku ána grátt mikinn hluta hásumarsins. Þetta er þó augljóslega mun lakara en í fyrra, en miklu betra en léleu árin tvö 2014 og 2012. Ekki náðist full vikutala í lokin, síðast kom full vikutala 7.9 en lokatala síðan 10.9. Það voru sem sagt þrír dagar eftir og þá daga fór veiðin úr 1297 löxum í 1342 laxa, eða 45 fiska. Alveg þokkalegt miðað við árstíma, einn a´stöng á dag, en áin er skráð fyrir 15 stöngum.

Þá vantar Grímsá og Svalbarðsá, en báðar heyra undir leigutakann Hreggnasa. Harladur Eiríksson sölustjóri þar á bæ sagði okkur nýverið að erfiðlega hefði gengið að nálgast veiðibækurnar, en um leið og það gengi eftir myndu tölurnar koma um hæl.

Og síðan vantar auðvitað Eystri Rangá, Ytri Rangá, Þverá í Fljótshlíð og Affallið, sleppitjarnarárnar á Suðurlandinu, en lokadagur þeirra hefur um árabil tónað við lokadag sjóbirtingsvertíðarinnar, eða 20.október; næsti fimmtudagur.