Einar Falur, Þorsteinn Joð, Langidráttur, Kjarrá
Einar Falur með fallega hrygnu úr Langadrætti í Kjarrá. Mynd Þorsteinn Joð.
Efra Rauðaberg, Kjarrá
Glímt við hrygnuna stóru í Efra Rauðabergi….

Formlegri opnun Þverár/Kjarrár lauk um hádegisbilið og gekk veiðin að óskum, þetta var “solid“ og góð byrjun með einum rosalegum hápunkti þegar einn og sami hylurinn gaf 19 laxa svo að segja í beit á einum morgni. En heildartalan var 75 laxar.

„Þetta voru 58 í Kjarrá og 17 í Þverá. Það var lax víða og mikil hreyfing, menn voru hvað eftir annað að horfa á göngur ryðjast yfir brot á milli hylja. Flestir eða allir að setja í laxa og all margir tóku grannt og hristu sig af. Stærsta laxinn veiddi Einar Falur ljósmyndari og blaðamaður í Efra Rauðabergi í Kjarrá, 97 cm hrygnu,“ sagði Ingólfur Ásgeirsson, einn leigutaka árinnar í samtali við VoV. Einar Falur sagði aðspurður í samtali við VoV að mynd væri því miður ekki til, „hann reif sig frá mér þegar ég var búinn að mæla hann og var að gramsa í vasanum eftir myndavélinni. Ég var einn á  ferð þarna efra, veiðifélaginn farinn í bæinn. En þetta var glæsileg hrygna og fyrsti laxinn úr Efra Rauðabergi í sumar. Ég gerði eins og alltaf þegar ég kem þarna, geri eins og Björn Blöndal gerði forðum þegar hann kom þarna með Wenners bræður og það þurfti að koma vitinu fyrir Max Wenner, sem hélt því fram að enginn fiskur væri í ánni, að heita á Rauð, heillatröllið við Rauðaberg. Það gafst Birni vel forðum daga og það hefur ekki brugðist mér til þessa,“ bætti Einar við, en þess má geta að laxinn tók þýska Snældu.

Aftur að Ingólfi, hann sagði okkur einnig að Brennan hefði verið tekin um tíma inn í svæðaskiptingu Þverár og gaf hún sjö laxa til viðbótar þeim sem áður voru nefndir. Sagði Ingólfur mjög líflegt hafa verið þar niður frá, mikil hreyfing, laxar á lofti og allt að gerast. „Greinilega góðar göngur á ferðinni,“ sagði Ingólfur.