Urriðafoss, Þjórsá
Myndin er frá Urriðafossi,.

Þau Harpa og Stefán hjá Iceland Outfitters eru greinilega með tröllatrú á Þjórsá og stangaveiðimöguleikum í því gráa stórfljóti, enda hefur Urriðafoss verið spútniksvæði síðan í fyrra og góð reynsla er að skapast á nýja svæðinu í Þjórsártúni. Nú eru þau komin með nýtt svæði, Kálfholt.

Að sögn þeirra hjóna er Kálfholt ein af þremur bestu netaveiðijörðunum í Þjórsá og er næsta jörð fyrir neðan Þjórsártún. „Landamerkin eru ca 400 metra fyrir neðan Urriðafoss austanmegin. Þar eru rennur áin nokkuð hratt niður í mikla þrengingu og á þeim kafla eru nokkuð flottir pallar og straumbrot. Aðeins hefur verið reynt með stöng á svæðinu og hafa fengist fiskar, sem gefur okkur nokkrar vísbendingar um að stangveiði sé möguleg á svæðinu. Þetta er gríðalega spennandi verkefni og verður mjög gaman að fylgjast með gangi mála í framtíðinni. Aðeins er veitt á 2 stangir í Kálfholti og er kvóti 5 laxar á stöng pr dag,“ sögðu þau Stefán og Harpa.