Lax, Lax-á
Flottur lax .

Á sama tíma og það eru gríðarleg tíðindi að Veiðifélag Árnessýslu náði góðum meirihluta til að banna netaveiðar í jökulvötnum svæðisins, þá er ljóst að málinu er alls ekki lokið. VoV heyrði í Árna Baldurssyni, veiðileyfasala, sem er ný sestur í stjórn VÁ.

Árni Baldursson
Árni Baldursson stjórnarmaður í VÁ segir enga sigurvímu einkenna líðanina þrátt fyrir tímamótin….

“Erum við í einhverri sigurvímu? Nei, alls ekki, en við erum virkilega sátt að hafa náð þessari niðurstöðu því að það getur ekki beðið lengur að taka á laxverndarmálum í héraðinu. Það hefur allt verið á niðurleið, t.d. er nóg að horfa á Sogið, það hefur farið úr því að gefa vel á annað þúsund laxa fyrir ekki allt of mörgum árum yfir í að gefa 118 laxa á öllum svæðum í fyrra. Áin er komin að fótum fram og allir leigutakar á svæðinu hafa tekið höndum saman um að enginn lax verði drepinn úr ánni á komandi sumri og vonandi næstu ár á meðan við réttum hana úr kútnum,” sagði Árni Baldursson hjá Lax-á, sem að situr nú í stjórn VÁ sem eigandi að Ásgarði við Sogið.

Sigurvíma, Árni? “Nei. Alls ekki. Þetta var sjö tíma átakafundur og ljóst er að stór hópur í sveitinni er ekki sáttur, men eru bæði sárir og reiðir. Það er því mikil vinna fram undan að lægja öldur og finna lausnir sem valda því að menn gangi sæmilega sáttir frá borði. Veiðibannið nær frá og með 2019 og við þurfum að nýta tímann vel, vinna saman og leggja á ráðin. Við viljum ekki þurfa að upplifa aftur svona háhitafundi. Við verðum að finna lausnir til að allir geti sæmilega við unað,” sagði Árni í samtali við VoV.