Þjórsá, Urriðafoss, Rögnvaldur Guðmundsson
Rögnvaldur Guðmundsson með fallega hrygnu úr Urriðafossi í morgun.

Veiði fór aldeilis vel af stað á Urriðafosssvæðinu í Þjórsá. Formleg opnun var í morgun og lönduðu tvær stangir átta stórlöxum, öllum á bilinu 80 til 85 sm. Veiðimenn upplifðu að mikið líf væri á svæðinu og því fer fjarri að þetta sé allt að gerast í einum stórum fosshyl.

Þetta er athyglisvert svæði og hefur verið mikið netaveiðisvæði um langt árabil, enda er Þjórsá með einn stærsta laxastofn landsins og Urriðafoss er fyrsta hindrunin sem verður á vegi laxins. Hann á því til að safnast þarna saman í stórar torfur. Harpa Hlín Þórðardóttir, annar eigenda Iceland Outfitters, sem hefur nú tekið stangaveiðina á svæðinu á leigu, sagði að veitt væri á tvær stangir og þetta væri meira en bara einn stór og mikill fosshylur.

„Fossinn er margskiptur og það eru stórir fosshyljir á tveimur stöllum. Í báðum var lax og einnig urðu menn varir við laxa neðan við fossinn og það kom líka lax á land fyrir ofan fossinn. Það er eiginlega ekki að segja til um það ennþá hevrsu margir veiðistaðir eru á svæðinu, þetta er svo óreynt ennþá,“ sagði Harpa.

En hvað með sambúðina við netin? „Það verður veitt eingöngu á stöng til 13.júní, eftir það þrír dagar á stöng á móti fjórum dögum í net. Sameiginlegt markmið okkar og landeigenda er samt að stangaveiði taki yfir alla veiði á svæðinu. Við töldum að það gæti ekki gerst í einu skrefi á þessu sumri, en miðað við þann áhuga sem veiðimenn sýna þessu, þá gæti sú breyting orðið fyrr heldur en seinna og fyrr en okkur hefði grunað,“ bætti Harpa við.