Ársæll Þór Bjarnason með einn rosalegan úr Bergsnös í morgun.

Stóra Laxá er að kveðja sumarið með mikilli stórlaxahrotu. Í gær kom þar á land stærsti lax sumarsins og dugnaðarforkar og reynsluboltar sem eru að loka henni núna röðuðu inn tröllunum í morgun.

Hér er Friðjón í Veiðiflugum með 101 cm hænginn.
Reynir M Sigmundson hampar einu tröllana í morgun.

„Þeir hafa verið í rosalegu stuði strákarnir og voru komnir með 25 á hádegi í dag, búnir að veiða tvær vaktir. Mest eru þetta stórlaxar, sá stærsti í gær 101 cm og nokkrir í morgun voru nær 100 cm en 95 þó að ég haldi að stærri lax en sá í gær hafi ekki veiðst. En þetta hefur erið svakaleg stórlaxatörn,“ sagði Árni Baldursson leigutaki Stóru Laxár í samtali við VoV í dag.

Friðjón Már Sveinsbjörnsson kenndur við Veiðiflugur á Langholtsvegi og Loop, fékk þann stóra í gær, vettvangurinn var Kóngsbakki á svæði 1 og agnið lítill Bismó. Í morgun fengust síðan all nokkrir rosalegir, m.a. fengu Reynir Sigmundsson og Ársæll Þór Bjarnason laxa sem voru alveg við meterinn.

Þrátt fyrir að stórlaxar hafi glatt veiðimenn við Stóru í sumar, og sérstaklega í haust, þá stefnir í eina lökustu veiði í ánni í all nokkur ár og leigutakinn Árni Baldursson staðfesti að sumarið eins og það legði sig, ekki aðeins í Stóru Laxá, væru vonbrigði.