Norðurá, Norðurárdalur
Það er fallegt í Norðurárdal og það lítur vel út núna. Mynd -gg.

Það vantaði það margar vikutölur nærri miðnætti á angling.is að við ákváðum að bíða með sundurliðunina okkar þangað til að fleiri ár detta inn með tölur. Einbeitum okkur þess í stað á fyrstu lokatölur þessarar vertíðar, en nokkrum ám hefur nú verið lokað.

Norðurá var lokað 11.september. Stutt veiðivika þar skilaði  alls 59 löxum og alls veiddust því í Norðurá  1719 laxar, sem er vel ásættanleg veiði og umtalsvert meiri en í fyrra þegar 1342 laxar veiddust. Í fyrra var sem kunnugt er smálaxaskortur en sterkar göngur tveggja ára laxa. Nú var minna af stórlaxi, en verulega meira af smálaxi.

Haffjarðará hefur einnig verið lokað, en það var gert þann 12.september. Stutt vika þar skilaði 37 löxum í viðbót til bókar og lokatalan var 1167 laxar.  Eða eilítið lakara en í fyrra þegar 1280 laxar voru færðir til bókar.

Neðri veiðisvæði Skjálfandafljóts hafa verið lokuð og lokatalan þar var 378 laxar, en í fyrra veiddusta lls 404 laxar. Afar lítil veiði var undir lok vertíðarinnar.

Loks getum við tínt til Búðardalsá sem var lokað 11.september. Stutt vika þar skilaði 17 löxum í bók, alls 285 löxum sem er nokkuð betri veiði en í fyrra þegar skráðir laxar voru 211 talsins.