Haukur H. Ómarsson, Hrafn H. Hauksson, Urriðafoss, Þjórsá
Feðgarnir Haukur H. Ómarsson og Hrafn H. Hauksson með fyrsta flugulax sumarsins, þennan glæsilega hæng úr Urriðafossi í Þjórsá. Mynd er fengin af FB síðu IO.

Fyrstu laxveiðiopnanirnar voru í morgun, Urriðafosssvæðið í Þjórsá og Straumarnir í Hvítá í Borgarfirði. Í fyrra veiddust tveir í tilraunaveiði í Urriðafossi og í morgun voru menn snöggir að setja í fyrsta flugulax sumarsins!

Eins og við greindum frá á VoV í gær veiddi Stefán Sigurðsson, annar tveggja eigenda Iceland Outfitters, tvo stórlaxa á nokkrum mínútum í Urriðafossi, en IO er nú leigutaki að svæðinu. Í morgun var svo formleg opnun. Stefán hafði spáð „brjálaðri veiði“ en hefði mátt bæta við brjáluðu veðri, því þeir sem opnuðu í morgun hrepptu algert löðrandi slagveður.

Urriðafoss, Þjórsá
Fyrsta flugulaxinum landað í morgun, óhætt að segja að veiðistaðurinn við Urriðafoss sé tröllslegur!

En það kom ekki að sök, þeir voru snöggir að setja í fyrsta laxinn og var það þar með fyrsti flugulax sumarins, því að þeir feðgarnir Haukur H. Ómarsson og Hrafn H. Hauksson byrjuðu daginn með flugu. Þetta var glæsilegur hængur eins og myndin ber með sér og tók hann flugu að nafni Franc N Snælda, sem gæti gefið til kynna að um afbrigði af Snældu sé að ræða. Flugu þessa hannaði Sean Stanton.

Við munum fylgjast með gangi mála eftir því við verður komist í dag og ennfremur freista þess að fá fréttir ofan úr Borgarfirðinum. En hvað sem öllu líður þá er ekki hægt að segja annað en að byrjunin lofi góðu þó að rétt um fyrstu sentimetra vertíðarinnar sé að ræða.