Korpa er í útboði

Nokkra athygli hefur vakið, að Úlfarsá, eða Korpa eins og margir kalla hana, þurfti í nýtt útboð eftir að fyrra útboð hennar var dæmt ógilt. Fyrir skemmstu rann út frestur til að skila inn nýjum tilboðum í útboði Korpu hinu síðara.

Úlfarsá er þekkt og gjöful laxveiðiá, ein af tveimur sem renna innan landamerkja Reykjavíkur. Hún er spræna en leynir á sér og getur verið glettilega góð veiðiá. Hreggnasi hefur haft ána á leigu síðustu árin en eigendur vildu í útboð með ána þar sem samningurinn við Hreggnasa var að renna út.

All nokkur tilboð bárust í ána og var SVFR, Stangaveiðifélag Reykjavíkur, með hæsta boðið. Var það all nokkuð hærra en næst hæsta boð og bárst út að því tilboði yrði tekið. Síðan fréttist lítið, eða þar til að skyndilega var komið fram nýtt útboð.  Árni Friðleifsson formaður SVFR sagði í samtali við VoV að hann gæti lítið sagt annað en að rétt væri að fyrra útboðið hefði verið gert ógilt og að málið hefði þá farið í biðstöðu. Benti hann á að heyra hvað veiðifélagið hefði að segja, en áður en VoV gerði svo fréttist af nýju útboði. Kom þá fram, að hæst bjóðandinn hafði ekki staðist ýtrustu útboðsskilmálana og því kosið fremur að bjóða út á ný fremur en að taka næst hæsta boði og við borið hinu algenga ákvæði að áskilja sér rétt til að taka hvaða tilboði sem er, eða hafna öllum. Það verður því athyglisvert að sjá hver hreppir hnossið í „útboði Korpu taka tvö.“